GM og Ford sjálfskiptingum
Allt að 10 hraða sjálfskiptingar verða brátt að veruleika og varla mun það tefja fyrir þessari þróun að nú eru báðir Detroit risarnir GM og Ford farnir að vinna saman að þróun þeirra. Frá þessu er greint í New York Times.
En hversvegna skyldu menn annars vera að því yfirleitt að búa til svona fjölþrepa skiptingar? Meginmarkmiðið er eldsneytissparnaður. Brunahreyflar eru þannig gerðir að á einhverjum tilteknum snúningshraða eða snúningshraðabili nýtist eldsneytið best og hlutfall afls, vinnslu og eldsneytiseyðslu er eins og best verður á kosið. Þessvegna byggja menn fjölþrepa sjálfskiptingar og fjölgíra gírkassa – til að halda vélinni sem oftast og lengst á þessum óska-snúningshraða þar sem afl-, eyðslu- og vinnslukúrvurnar smella saman. Níu gíra sjálfskipting er talin draga úr eldsneytiseyðslu bíls um 16% miðað við ef hann væri með sex gíra skiptingu.
Gírum í Evrópskum bílum hefur farið fjölgandi undanfarin ár eftir því sem krafan um minni eyðslu hefur styrkst. Fimm gíra gírkassar komu fram í bílum í Evrópu upp úr árinu 1970 og sex og sjö gíra kassar eru að verða stöðugt algengari. ZF er einn stærsti gírkassaframleiðandinn í Evrópu og framleiðir gírkassa í stóra og smáa bíla bæði hand og sjálfskipta, sem og hefðbundnar sjálfskiptingar. Nýjasta sjálfskiptingin frá ZF er átta hraða.