GM og Hyundai sagðir vilja eignast Chrysler
Chrysler Airflow frá 1934.
The Sunday Times í London greindi frá því um helgina að Hyundai Motors bílaframleiðslufyrirtækið í S. Kóreu vilji kaupa Chrysler í Bandaríkjunum. Það sem Hyundai sækist fyrst og fremst eftir sé þétt sölukerfi Chryslers í Bandaríkjunum.
Talsmaður Hyundai í Kóreu neitaði þessu í samtali við fréttamann Reuters í morgun.
Reuters hefur eftir heimildum innan bílaiðnaðarins að General Motors hefði sl. föstudag þreifað fyrir sér um kaup á Chrysler eða að fyrirtækin tækju upp með sér nána samvinnu. Það yrði vissulega sögulegt ef þessir fornu keppinautar gengju í eina sæng.
Sunday Times greindi einnig frá því um helgina að fjárfestingabankinn JPMorgan veitti DaimlerChrysler, eignaraðila Chryslers í Bandaríkjunum, ráðgjöf í sambandi við framtíð hins bandaríska arms fyrirtækisins. Sérfræðingar JPMorgan voru sagðir vinna að skýrslu um ástand mála hjá Chrysler sem yrði send stjórn DaimlerChrysler og nokkrum öðrum aðilum, þeirra á meðal General Motors og Hyundai, þegar hún verður tilbúin undir miðja þessa viku.