GM og Mercedes sagðir munu skipta Chrysler með sér
27.02.2007
Financial Times greindi frá því í gær að líkleg útkoma í málum Chrysler í Bandaríkjunum yrði sú að eigandinn; DaimlerChrysler selji General Motors hlut í Chrysler og fái greitt fyrir hann með hlutabréfum í GM.
Financial Times telur að viðræður sem staðið hafa milli fulltrúa DaimlerChrysler og GM séu lengra á veg komnar en látið hefur verið uppi. DaimlerChrysler telji það sér hagfellt að GM eignist sterkan hlut í Chrysler því þá muni fyrirtækið áfram hafa áhrif á rekstur og framleiðslustefnu Chrysler í Bandaríkjunum. Auk fless muni eignaraðild GM að DaimlerChrysler gagnast báðum aðilum á tækni- og þróunarsviðum ekki síst.
Það sem helst hindrar að hægt sé að selja Chrysler eru lífeyrisskuldbindingar fyrirtækisins við starfsmenn. Þær eru minnst helmingi hærri en það verð sem sjálft fyrirtækið er metið á.
Financial Times nefnir í frétt sinni nokkra aðra möguleika varðandi ofannefnd viðskipti við GM. Einn er sá að selja frá Chrysler einstakar framleiðslugreinar til undirframleiðenda eða annarra iðnfyrirtækja. Annar möguleiki sem blaðið nefnir er sá að selja einstök vörumerki út úr Chrysler, t.d. Jeep. Þá sé einnig mögulegt að selja Jeep verksmiðjuna í Kína sem gengið hefur mjög vel. Með því fengist fjárhagslegt svigrúm til að hraða þróun nýrra bílgerða sem höfða betur til bandaríska markaðarins en stóru illseljanlegu bílarnir sem verið hafa uppistaðan í framleiðslunni í Bandaríkjunum fram að þessu.
Fjórði möguleikinn sem Financial Times nefnir er sá að aðskilja Chrysler frá DaimlerChrysler. það myndi skapa vinnufrið til að endurreisa Chrysler og róa niður evrópska hluthafa, ekki síst þá þýsku sem sagðir eru mjög æstir yfir stöðugt lækkandi gengi hlutabréfa í DaimlerChrysler undanfarin sjö ár.
Volkswagen, Hyundai, Peugeot/Citroën og Fiat hafa lýst því yfir að hjá þeim sé enginn áhugi fyrir því að eignast Chrysler. Aðra sögu er að segja af iðnfyrirtækinu og undirframleiðandanum Magna sem orðað hefur verið við kaup á Chrysler. Engar yfirlýsingar hafa fengist út úr forráðamönnum Magna til þessa en vitað er að þeir hafa skoðað ansi rækilega allar verksmiðjur Chrysler.
Eitt af undirfyrirtækjum Magna er Magna-Steyr í Graz í Austurríki sem framleiðir m.a. Chrysler- og Jeep-bíla fyrir Evrópumarkað.