GM-risinn áttar sig

http://www.fib.is/myndir/GM_logo_1.jpg
General Motors líkt og Ford og sumpart Chrysler hefur haldið mjög fast í framleiðslu á mjög stórum bílum fyrir heimamarkaðinn Bandaríkin þrátt fyrir síhækkandi eldsneytisverð og minnkandi eftirspurn eftir stóru amerísku hlunkunum.

Stóru bandarísku bílaframleiðendurnir hafa um árabil hundsað vaxandi eftirspurn bandarísks almennings eftir minni og sparneytnari og þægilegri bílum í daglegri notkun. Þá eftirspurn hafa  bílarisarnir í Detroit eftirlátið erlendum framleiðendum að uppfylla, ekki síst japönskum, með alvarlegum afleiðingum fyrir þá sjálfa. Nú virðist sem stjórnendur GM séu loks að átta sig á þessu, því að fréttastofa Blooberg hefur eftir heimildum innan GM að stefna eigi þegar í stað í harða samkeppni við Toyota um framleiðslu á vönduðum, sparneytnum og tæknilega fullkomnum smá- og millistærðarbílum og draga að sama skapi enn meir en þegar hefur verið gert úr framleiðslu á risastórum jeppum og pallbílum. 

Á árinu sem nú er að líða hefur verið skorið mjög harkalega niður hjá GM og er útgjaldasparnaður vegna aðhaldsaðgerðanna um níu milljarðar dollara. Þeim sparnaði á að mestu að verja til fjárfestinga í nýjum litlum og meðalstórum bílum sem ýmist verða tvennubílar (bensín/rafknúnir) eða með hefðbundnum sparneytnum bensínvélum sem geta hvort heldur sem er gengið á bensíni, gasi eða etanóli. Þessar nýju vélar sem GM ætlar að hanna og framleiða alveg á næstunni verða  einnig settar í hina hefðbundnu risastóru amerísku jeppa, pallbíla og fólksbíla sem áfram verða í boði en í minna mæli en áður. Gömlu stóru, eyðslufreku sex og átta strokka vélarnar sem verið hafa í stóru bílunum munu að sögn heimildarmanna Bloomberg innan GM smám saman hverfa af sjónarsviðinu að mestu.

Bloomberg segir að Rick Wagoner forstjóri GM muni gera grein fyrir þessum nýjustu áætlunum sínum fyrir áramót. Staða hans innan stjórnar GM hefur greinilega styrkst. Skýrast merki þess er að hann gat komist upp með að hafna sameiningu við Renault og Nissan og þannig gengið í berhögg við vilja stærsta hluthafans í GM, fjárfestisins Kirks Kerkorians. 

Reikningar GM fyrir þriðja ársfjórðung voru lagðir fram á mánudag. Samkvæmt þeim  er afkoman batnandi og rekstrartap mun minna en búist var við. Fræðimenn í fjármálum telja að batmerki sé að sjá hjá GM og að gamli bílarisinn sé að koma undir sig fótum á nýjan leik.