GM sagt tapa næstum $50.000 á hverjum Chevrolet Volt
General Motors tapar hátt í 50 þúsund dollurum á sérhverju nýju eintaki af Chevrolet Volt. Tapið er hærra en það verð sem GM leggur á bílinn. Þetta kemur fram í nýrri fréttaskýringu sem Reuters fréttastofan birti í gærmorgun. Talsmenn GM játa við Detroit News að tap sé á framleiðslu bílsins en ekkert í námunda við það sem Reuters segir. Sé tapinu jafnað út á áætlaðan líftíma Volt-verkefnisins og tæknilegir þættir Volt bílsins fara að koma fram í öðrum tegundum GM bíla líti jafnan allt öðruvísi út. Volt sé þannig í raun háþróað og víðtækt rannsóknaverkefni sem eigi eftir að skila sér síðar.
Mikill spenningur var fyrir Chevrolet Volt í aðdraganda þess að bíllinn kæmi í almenna sölu í desember 2010. En salan fór miklu hægar af stað en vænst var og hefur lengst af verið langt undir væntingum. Þó hefur hún verið að aukast jafnt og þétt og í ágústmánuði sl. seldust fleiri Volt bílar en nokkru sinni áður, eða 2.831 eintök. Það er rúmlega þúsund fleiri en seldust í júlí og nífalt fleiri en seldust í ágúst 2011.
Fréttaskýring Reuters er byggð á tölulegum gögnum frá GM en úr þeim var unnið af óháðum aðilum. Samkvæmt niðurstöðum þeirra kostar hver einasti framleiddur Chevrolet Volt 89 þúsund dollara. Inni í þá tölu er allur kostnaður reiknaður við kaup og framleiðslu íhluta, samsetningarvinnu sem og 1,2 milljarða dollara fjárfestingu í Volt verkefninu hingað til. Þessari summu er síðan deilt upp á fjölda framleiddra bíla.
Jim Cain talsmaður GM segir við Detroit News að þetta sé kolröng nálgun. Til að fá út kostnað á hvern bíl verði að gera upp verkefnið út frá öllum líftíma þess og afköstum. Með aðferð Reuters verði hver framleiddur og seldur Volt bíll stöðugt dýrari og dýrari og niðurstaðan vitlausari og vitlausari. Cain viðurkennir þó að framleiðslukostnaður hvers bíls sé hærri en talan á verðmiðanumer, en í Bandaríkjunum er hún $39.995. Hér á Íslandi kostar Volt (seldur undir merki Opel Ampera) um átta milljónir.
En þeir bílablaðamenn og aðrir sem reynsluekið hafa Volt eru sammála um að hann sé bráðskemmtilegur í akstri, viðbragðssnöggur og lipur í snúningum í þéttbýlinu og góður á þjóðvegum og hraðbrautum. En Chevrolet Volt er einungis fjögurra manna bíll og mörgum finnst kaupverð hans hátt miðað við það. Volt er byggður að grunni til á Chevrolet Cruze, en rafhlöðunum er komið fyrir í stórum T-laga stokki sem liggur eftir miðju gólfinu og þversum aftan við aftursætin. Stokkurinn er það hár og breiður að ekki fyrirfinnst rými fyrir meira en tvo farþegastóla aftur í bílnum sínu hvoru megin við miðjuhluta stokksins.
En Chevrolet Volt er tilraunabíll, því að hann er fyrsti fjöldaframleiddi rafbíllinn sem er með innbyggða rafstöð sem framleiðir nægan straum til að komast lengra en þetta 70-80 kílómetra þegar verulega tekur að lækka á geymunum. Í stað þess að neyðast til að stansa þá og stinga í samband fer rafstöðin bara í gang og bíllinn heldur áfram förinni eins og ekkert hafi í skorist.
Volt er þannig rafbíll. Rafmótorinn í honum knýr hann einn áfram. Hann er ekki tvíorkubíll eins og Toyota Prius en í honum knýja rafmótor og bensínvél bílinn áfram í sameiningu (oftast nær).
Prius var á sínum tíma tilraunabíll, enda mikil nýjung þegar hann kom fyrst fram. Hann var eins og Volt, dýr í framleiðslu og framleiðslukostnaður við hvern byggðan og seldan Prius var lengi hærri en það verð sem bíllinn var seldur á nýr. En Prius hefur haft gríðarlegt auglýsinga- og kynningargildi fyrir Toyota og hiklaust má telja að hann sé talsverður þáttur í því orðspori sem Toyota hefur sem framsækinn og vandaður framleiðandi sem ber umhyggju fyrir umhverfinu. Ekki er ólíklegt að Volt eigi eftir að verða GM mikilvægur í þessu tilliti líka síðarmeir, ekki síst ef sú tækni sem er undirstaða hans berst til fleiri bílagerða og tegunda.
Þegar fjöldaframleiðslan á Volt hófst að marki síðla árs 2010 voru líþíum rafgeymarnir óheyrilega dýrir. Hver kílóvattstund í geymasamstæðunni kostaði a.m.k. þúsund dollara þá. Í dag er hún talin kosta rétt undir 700 dollurum og er talin munu verða komin niður í ca. 400 dollara þegar Volt-verkefninu lýkur.
Þannig má líta á Volt sem sérstakt rannsókna og þróunarverkefni. Reynist tæknin vel mun hún breiðast út og með aukinni fjöldaframleiðslu lækkar framleiðslukostnaðurinn. Þetta voru reyndar meginrök Bob Lutz, sem sést á myndinni, þegar hann barði það í gegn í stjórn GM að ráðst í Volt verkefnið