GM selur hlut sinn í Suzuki
General Motors setti í gær 17 prósenta hlut sinn í Suzuki í sölu, en GM hefur verið hluthafi í Suzuki í aldarfjórðung. Hluturinn er að sögn Bloomberg fréttastofunnar metinn á um 120 milljarða ísl. kr. GM reiknar hins vegar með að fá 550-750 milljón dollara hagnað fyrir skatta af hlutnum, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá GM.
GM bílarisinn rambar á barmi gjaldþrots og er einfaldlega tilneyddur að selja frá sér allt sem einhvern pening gefur, eins og eignarhlutinn í Suzuki – stærsta framleiðanda smábíla í heiminum. Þess er skemmst að minnast þegar GM sleit samstarfi við Fiat á síðasta ári og seldi svo 20 prósenta hlut sinn í Fuji Heavy industries (Subaru) til Toyota í október sl.