GM setur viðvörunarbúnað fyrir aftursæti nýrra bíla
General Motors hefur byrjað á að setja sérstakan öryggisbúnað í nýja bíla. Búnaðurinn varar ökumenn við svo þeir gleymi ekki neinu og allra síst sofandi barni í aftursætinu þegar þeir yfirgefa bílinn. GM vonast til að búnaðurinn fækki dauðaslysum á börnum af völdum ofhitnunar í bílunum.
Samkvæmt frétt frá GM hafa 39 börn látist á þessu ári á þennan hátt – börn sem voru sofandi í aftursætinu og gleymdust þegar ökumaður yfirgaf bílinn úti á bílastæði. Það mun vera 60 prósent aukning frá síðasta ári (2015). Búnaðurinn sem kallast Rear Seat Reminder er nú orðinn staðalbúnaður í flestum nýjum GM fólksbílum eins og GMC Acadia, Buick Lacrosse, Cadillac CT6 og Escalade, Chevrolet Equinox, Colorado, Cruze, Malibu og Equinox.
Búnaðurinn verður virkur ef afturdyr eru opnaðar og síðan lokað aftur innan við 10 mínútum áður en bíllinn er gangsettur og ekið er af stað. Þegar síðan bíllinn hefur verið stöðvaður heyrist hljóðmerki og texti birtist í mælaborðinu sem segir ökumanni að kíkja í aftursæti hvort hann sé að gleyma einhverju eða einhverjum þar.