-GM verður að losa sig við Opel
Framtíð Opel er í óvissu þrátt fyrir nýjar og vænlegar gerðir og vel samanskrúfaða og vinsæla bíla. En taprekstur hefur verið viðvarandi um fjölda ára og nú segir Adam nokkur Jonas, sérfræðingur hjá Morgan Stanley fjárfestingabankanum að eina vitið fyrir GM; eiganda Opel, sé að hætta rekstrinum eða flytja hann frá Þýskalandi til Ástralíu og Chile.
Bílasýningin í París er framundan og þar sýna evrópskir bílaframleiðendur það nýjasta og viðra nýja bíla sem enn eru á hugmyndarstigi, til að meta hvernig almenningi falla þær í geð. Opel mun frumsýna þar tvo nýja áhugaverða bíla: Annarsvegar nýja smábílinn Adam sem myndin er af, og hinsvegar jepplinginn Mokka.
Fjármálarýnirinn Adam Jonas hjá Morgan Stanley telur ekki að þessar nýju tegundir muni skipta sköpum og snúa lukkuhjóli Opel við. GM hljóti því að huga að því að loka Opel eða selja verksmiðjur og vörumerkið sjálft. Automotive News bendir á að það sé nú meira en að segja það því að það að loka Opel gæti kostað risaupphæðir í lífeyrisskuldbindingum gagnvart starfsfólkinu sem slagað gætu hátt upp í samanlagt tap Opel undanfarin 12 ár.
En þar sem ekki sé gott að sitja uppi með fyrirtæki sem bara tapar og tapar, sé kominn tími til að leita annarra leiða og finna Opel nýja heimilisfesti utan Evrópu. Opel hefur hingað til nánast einvörðungu verið á markaði í Evrópu, en nú er að hefjast sala í Ástralíu á Corsa, Astra og Insignia. Nokkrar vonir eru bundnar við að þokkalega gangi, ekki síst vegna þess að um 80 prósent ástralska bílaflotans er af sömu stærðarflokkum og þessir bílar. 17 Opel sölustaðir hafa verið opnaðir í Ástralíu og verður fjölgað ef vel gengur.
Þá er einnig byrjað að selja Opel Meriva, Corsa, Astra og Insignia í Chile oglofar byrjunin góðu.