Góð bílasala það sem af er ári
Sala nýrra fólksbíla fyrstu 7 mánuði þessa árs hefur gengið mjög vel. Þann 1. ágúst var búið að selja tæplega 10 þúsund bíla. Aðilar innan bílgreinarinnar hafa tjáð FÍB vefnum að salan það sem af er ári hafi farið fram úr væntingum. Um síðustu áramót spáðu fagaðilar samdrætti í bílasölu á þessu ári í kjölfar tveggja undangenginna metára.
Líkt og undanfarin ár eru Toyota bílarnir vinsælastir meðal íslenskra neytenda. Þann 1. ágúst sl. var búið að selja 2.431 fólksbíl af Toyota gerð. Markaðshlutdeild Toyota hefur þó heldur dregist saman fyrstu sjö mánuðina í ár samanborið við allt síðasta ár. Toyota var með 28% markaðshlutdeild árið 2006 en er fyrstu sjö mánuðina nú með 24,4%. Þessar tölur eru þó ekki alveg samanburðarhæfar því sumir sölumánuðir eru stærri en aðrir m.a. vegna þess að framboð af bílum er ekki alltaf í samræmi við væntingar markaðarins.
Toyota er með yfirburði yfir önnur merki því næst söluhæsta tegundin á íslenska markaðnum Volkswagen nær ekki þriðjungnum af Toyota sölunni. VW er með 7,6% markaðshlutdeild og í þriðja sæti eru Honda bílar með 6,6% af markaðnum í ár. Bæði VW og Honda hafa aukið hlutdeild sína samanborið við liðið ár.
Á myndinni hér fyrir ofan er búið að taka saman heildarsölu á nýjum fólksbílum hjá helstu bifreiðaumboðunum. Hekla+ sýnir sölu bifreiða hjá Heklu, Kia umboðinu og Öskju, en þessi fyrirtæki eru í eigu sömu aðila og í mikilli samvinnu.