Góð hugmynd sem varð staðalbúnaður
Um þessar mundir eru tveir áratugir frá því að ESC (Electronic Stability Control) stöðugleikastýrikerfið kom fyrst fram í lúxusbíl frá Mercedes Benz. ESC kerfið er í rauninni viðbót við tvær aðrar eldri hugmyndir sem eru ABS hemlalæsivörnin sem sér til þess að þegar nauðhemlað er ná hjólin aldrei að stöðvast alveg. Það þýðir það að hemlunin verður mun virkari og hemlunarvegalengdin styttist verulega. Spólvörnin er síðan hin hugmyndin.
ABS læsivörnin kom líka fram fyrst í bílum frá Mercedes Benz árið 1978 og spólvörn bættist svo við árið 1985. Þegar þetta hvorttveggja var til staðar, voru dyrnar í rauninni opnar fyrir næsta skref sem var skrikvörnin. Hún var svo kynnt til sögunnar árið 1995. Skrikvörnin er í rauninni þannig gerð að bætt var við ABS kerfið og spólvörnina skynjurum sem námu stýrishreyfingar og miðflóttafl í beygjum. Með tilkomu þeirra varð til kerfi sem skynjaði undireins allar snöggar breytingar á hreyfingum bílsins og snúningi hjólanna og gat strax gripið inn í atburðarásina með því að ýmist hemla eða slaka á hemlun einstakra hjóla og slegið af vélarsnúningnum og þannig hjálpað ökumanni til að ná aftur valdi á bílnum í erfiðum akstursaðstæðum. Þetta hefur sannarlega virkað eins og ætlast var til því að nýjar bandarískar rannsóknir sýna að látnum og alvarlega slösuðum í eins bíls óhöppum í fólksbílum hefur fækkað um 30 prósent og um 67 prósent í eins bíls slysum á jeppum og jepplingum.
ESC skrikvörn kom fyrst fram í stærstu og dýrustu gerðum Mercedes fólksbíla og varð fljótlega staðalbúnaður– fyrst í S-600 lúxusbílunum með V12 vélum. Í öðrum gerðum Mercedes bíla var það hins vegar valbúnaður um sinn eða þar til það varð árið 1997 staðalbúnaður í minnsta og ódýrasta Mercedesbílnum Benz A. Eftir það leið ekki á löngu þar til ESC varð staðalbúnaður í öllum Mercedes Benz bílum og nú, árið 2015 er kerfið staðalbúnaður í öllum bílum í Evrópu, ódýrum sem dýrum.
En hversvegna varð kerfið svona snemma staðalbúnaður í minnsta og ódýrasta bílnum frá Mercedes Benz?
Ástæðan er talsvert sérstök: Vorið 1997 var litli framhjóladrifni hábyggði A-Benzinn glænýr og voru sænskir blaðamenn að reynsluaka honum og var reynsluaksturbíllinn með öllum þeim búnaði sem fáanlegur var þá, þar á meðal með ESC stöðugleikakerfi. Einn sænsku blaðamannanna vildi ganga úr skugga um hversu stöðugur þessi hábyggði smábíll væri í raun og veru og aftengdi því ESC-kerfið. Í ljós kom að án ESC bar bíllinn frekar valtur og svo fór að blaðamaðurinn velti honum þegar hann ók gegn um elgsprófið þar sem snöggbeygt er fram hjá hindrun svipað og manneskju eða dýri sem stekkur í veg fyrir bílinn.