Góð umferðarmannvirki stórminnka slysahættuna

Í umræðum um umferðina í höfuðborginni og manngerðar tafir og trafala sem settir hafa verið í veg hennar undanfarin ár, tala kjörnir fulltrúar borgarbúa og embættismenn þeirra mjög gjarnan um hversu gríðarlega fjármuni það kostar að bæta úr málum og gera meginleiðir greiðfærari og hættuminni. Þeir réttlæta óvilja sinn til úrbóta með því að endurbætur og nýframkvæmdir séu rándýrar. Draumsýnin er nefnilega sú að fækka bílum í umferð koma fólkinu upp á reiðhjól og inn í strætisvagna.

http://www.fib.is/myndir/Miklubrautarslys.jpg
 

Stöð 2 hefur undanfarið beint kastljósi á umferðarþyngsta þjóðveg landsins, Miklubraut, og fjallað sérstaklega um vegamót Miklubrautar og annars þjóðvegar; Kringlumýrarbrautar. Þar myndast daglega miklir umferðarhnútar á annatímum og hættuástand skapast. Samgöngustjóri Reykjavíkurborgar sagði í viðtali við fréttamann Stöðvar 2 að ekki stæði til að taka áætlanir um mislæg gatnamót á þessum stað ofan af þeirri hillu sem þær voru lagðar á í hruninu fyrir fimm árum. Hann vísaði ábyrgðinni frá sér og borgaryfirvöldum yfir á herðar akandi fólks. Það þyrfti bara á hvatningu að halda til sýna ábyrgð í umferðinni og skapa ekki hættu.

Þegar greindar eru slysatölur á vegum landsins kemur í ljós að þjóðvegurinn Hringbraut-Miklabraut frá Ánanaustum og austur fyrir Grensásveg er einn áhættumesti vegur landsins. Á vegamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar hafa orðið 6 alvarleg umferðarslys á árunum 2007-2012 þar sem fólk hefur stórslasast eða látist. 76 slys hafa orðið þar sem fólk hefur lítið meiðst og 559 atvik hafa orðið þar sem einungis varð eignatjón. (Sjá töfluna hér að ofan).

Í ljósi áhættu og slysatalna og kostnaðar af umferðarslysum og í ljósi reynslunnar ætti það að vera flestum ljóst að úrbætur sem miða að því að gera umferðina hættuminni eru fljótar að skila sér til samfélagsins. Tvö lýsandi eldri dæmi um það eru vegamót Vesturlandsvegar og Höfðabakka annarsvegar og Hafnarfjarðarvegar og Arnarnesvegar hins vegar. Á báðum þessum stöðum voru mjög alvarleg slys afar tíð en eftir að mislæg gatnamót voru gerð, hurfu þau svo að segja. Þessi umferðarmannvirki voru því fljót að borga sig og ætla má að raunin verði sú sama á Hringbraut/Miklubraut, ef yfirvöld þessara mála einhverntíman fást til að gangast við ábyrgð sinni.

http://www.fib.is/myndir/Slysaverd.jpg

Á vef Umferðarstofu er að finna skýrslu Hagfræðistofnunar um kostnað við umferðarslys á Íslandi árið 2009. Þar er reynt að meta hvað slysin kosta í raun og veru. Þótt slíkt mat sé verulega flókið og erfitt og niðurstöður geti að nokkru ráðist af þeim aðferðum sem beitt er, þá er kostnaður samfélagsins af umferðarslysum gríðarlegur, sama hvernig reiknað er. Hann leggst á þolendur, aðstandendur þeirra, á tryggingakerfið, á heilbrigðiskerfið, löggæsluna og dómskerfið.

Hagfræðistofnunarskýrslunni er áætlað hvað hvert umferðarslys kostar, eftir því hverskonar slysið er. Á myndinni hér að ofan eru kostnaðartölurnar uppreiknaðar til verðlags þessa mánaðar og þær eru ekki smáar.