Góður gangur í síðasta kafla í tvöföldun Reykjanesbrautarinnar
Unnið er víða á kaflanum frá Krýsuvíkurvegi og að Hvassahrauni á milli þeirra kafla sem þegar hafa verið tvöfaldaðir. Þetta er síðasti kaflinn í tvöföldun Reykjanesbrautarinnar. Verktakinn ÍAV hf. vinnur nú að vegagerð á þremur stöðum auk brúarsmíði í Hraunavík. Kraftur er í framkvæmdum og líklegt að verkið klárist fyrr en ætlað var að því er fram kemur á vef Vegagerðarinnar.
Verið er að bora og sprengja í og við hringtorg við Rauðamel og verður áfram næstu tvær vikur. Við Hraunavík er lokið við að tengja vatnslögn, að grófmóta göngustíg og unnið hefur verið að smíði undirganga. Við Álhellu er unnið við lagnir og fleira, það verður unnið áfram að því og einnig við borun og sprengingar næstu vikur. Þá er lokið við að steypa plötu í brú í Hraunavík og unnið að uppslætti á brúarvængjum, að því loknu verður unnið að fyllingum að brúarveggjum. Lagnavinna er einnig í gangi vegna Carbfix.
Það er þannig mikill kraftur í framkvæmdum sem á tíma töfðust lítillega en sú töf hefur verið unnin upp og reikna má með að verkinu verði lokið fyrr en áætluð. Verklok voru í útboðinu áætluð 30. júní 2026.
Verkið snýst í heild sinni um tvöföldun Reykjanesbrautar á um 5,6 km kafla milli Krýsuvíkurvegar og Hvassahrauns ásamt aðliggjandi hliðarvegum. Einnig er inni í verkinu bygging fimm brúarmannvirkja og einna undirganga úr stáli. Verk þetta er samstarfsverkefni Vegagerðarinnar, Hafnarfjarðarbæjar, HS Veitna, Mílu, Orkufjarskipta, Ljósleiðarans, Carbfix og Veitna.