"Golf"-bíll frá Nissan
Nissan hefur tilkynnt að fyrirhugaður sé nýr bíll í C-stærðarflokki (sem myndin er af) sem keppa eigi við Volkswagen Golf á markaði. Þessi nýi bíll verði framleiddur í verksmiðju Nissan í Barcelona. Vegna þessa verði verksmiðjan endurnýjuð fyrir um 23 milljarða ísl. kr. og afkastageta hennar aukin verulega. Þetta þykja mörgum Katalóníubúm nokkur gleðitíðindi en atvinnuleysi þar, sem og annarsstaðar á Spáni hefur verið og er gríðarlega mikið.
Nissan hefur í raun ekki boðið upp á neinn bíl í Golf-flokknum í Evrópu síðan framleiðslu á Nissan Almera var hætt árið 2006. Byrjað verður að framleiða nýja bílinn sem nú er í undirbúningi árið 2014 og á hann að koma á markað síðla sama árs. Til þess að Barcelonaverksmiðjan geti annað framleiðslunni á nýja bílnum þarf að auka afkastagetu hennar um helming eða upp í 80 þúsund bíla á ári. Það kallar á eitt þúsund ný störf í verksmiðjunni sjálfri og ca. þrjú þúsund afleidd störf utan hennar til viðbótar. Í þessari sömu verksmiðju eru framleiddir jepparnir Pathfinder og Navara og sendibíllinn NV200. Pallbíllinn Navara er vinsæll bíll og vegna vaxandi eftirspurnar eftir honum þarf jafnframt að nýta hluta þess fjár sem ætlað er til endurbóta á verksmiðjunni í Barcelona vegna nýja bílsins fyrrnefnda, til að endurbæta Navara framleiðslulínuna svo hægt verði að auka ársframleiðsluna á Navara um 24 þúsund bíla. Ennfremur verður byggð sérstök deild í verksmiðjunni til að framleiða gírkassa í rafbílana Leaf og eNV200.
Sú ákvörðun að byggja nýja „Golf“ Nissaninn í Barcelona hefur valdið vonbrigðum í Frakklandi en þar vonuðust menn til að framleiðslan færi fram í einni af verksmiðjum Renault sem þar eru. Þá kom einnig til greina að byggja nýja bílinn í verksmiðju Nisssan í Sunderland í Bretlandi. En þar varð niðurstaðan sú að byggja í staðinn svipaðan bíl undir merkinu Infiniti.
Auk fjárfestinganna í Barcelona undirbýr Renault/Nissan samsteypan nýjan smábíl sem framleiða á í verksmiðju Renault í Vallaloid á Spáni. Bíllinn nefnist Renault Captur og er byggður á sama undirvagni og hinn nýi Renault Clio. Captur verður sýndur á bílasýningunni í Genf sem opnuð verður í næsta mánuði.