Gömlu dekkin að dísilolíu
Sænskur uppfinningamaður sem lengi hefur starfað í olíuiðnaði, m.a. í Brasilíu, Anders Olsson að nafni, hefur fundið upp aðferð til að breyta gömlum hjólbörðum í dísilolíu. Hann og fyrirtæki hans sem nefnist Cassandra Oil, hafa fengið einkaleyfi á aðferðinni. Það eru ekki bara gömul útslitin dekk sem nýtast sem hráefni til olíuframleiðslunnar heldur líka hvers kyns plast- og gúmmí-úrgangar.
Þar sem olía er megin hráefnið við framleiðslu á hverskonar plasti og gúmmívörum eins og hjólbörðum er þessi olíuframleiðsla uppfinningamannsins því í raun endurvinnsla. Galdurinn felst í því að nota aðferð sem er hagkvæm og það virðist Anders Olssons hafa tekist. Aðferðin kallast termisk depolymerisering á sænsku.
Olsson segir í viðtali við sænsku vefsíðuna Ny Teknik að tækni hans geri það mögulegt að framleiða dísilolíu í sömu gæðum og skipadísilolíu fyrir undir 30 dollurum á olíufatið og að hráefnið geti verið bíldekk, úrgangsplast, menguð úrgangsolía frá olíuhreinsistöðvum, gömul fiskinet og jafnvel innmatur úr ónýtum tölvum. Úr hverjum tíu kílóum af dekkjagúmmíi fáist 4,5 kíló af olíu og frá því að gúmmíinu og plastdraslinu er mokað í vélarnar líða aðeins um 15 mínútur þar til olían streymir út.
Þegar búið er að aðskilja efnin í dekkkjunum er olían tæpur helmingur, fjórðungur er koladuft, tíundi hluti er gas og annar tíundi hluti stál og trefjaefni.