Gott að temja sér sparakstur í yfirvofandi eldsneytisskorti
Í yfirvofandi eldsneytiskorti er gott að temja sér sparakstur, sem felur í sér að ná sem mestum kílómetrafjölda á sem minnstu eldsneyti.
„Það er æskilegt að huga alltaf vel að eldsneytisnotkun, ekki hvað síst nú, er það þarf hugsanlega að spara dropann enn frekar,“ segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda,“ í samtali við Fréttablaðið.
Runólfur segir að til þess að spara sem mest eldsneyti sé grundvallaratriði að huga vel að flæði umferðar.
„Það skiptir máli að vera á sem jöfnustum hraða og reyna að koma í veg fyrir að vera sífellt að stoppa og taka af stað. Í þjóðvegaakstri þarf að passa upp á hraðamörkin, það kemur betur út að halda sig við hraðaviðmiðanir heldur en að vera að kitla pinnann,“ segir Runólfur.
„Ef þú ert á beinskiptum bíl áttu að miða við það að skipta ört upp og keyra í frekar lágum snúning,“ segir Runólfur og bætir við að viðhald á bílum skipti líka máli. „Ef maður er að kynda allt í bílnum þá eykur það orkunotkun. Það er stundum nóg að hafa sætishitarann í gangi,“ segir Runólfur Ólafsson.