Götulokanir vegna leiðtogafundar Evrópuráðsins
Leiðtogafundur Evrópuráðsins verður haldinn í Reykjavík dagana 16. til 17. maí 2023. Ætla má að fundurinn hafi nokkur áhrif á daglegt líf íbúa á höfuðborgarsvæðinu þessa daga. Af öryggisástæðum verða götur í kringum Hörpu lokaðar fyrir umferð ökutækja á meðan á fundinum stendur en hægt verður að fara um svæðið gangandi og á hjóli. Þetta á hins vegar ekki við um svæðið næst Hörpu, sem verður lokað almenningi.
Einnig má gera ráð fyrir umferðartöfum um allt höfuðborgarsvæðið vegna aksturs sendinefnda í lögreglufylgd til og frá Keflavíkurflugvelli og Reykjavíkurflugvelli á þessum dögum. Áhrifin verða hvað mest síðdegis á þriðjudeginum og miðvikudeginum.
Von er á upplýsingum um ráðstafanir fyrir hreyfihamlaða.
Íbúar sem eiga lögheimili og bílastæði innan svæðisins geta haft samband á infodep@utn.is.
Hér er kort af fyrirhuguðum lokunum til útprentunar.
Hvenær hefst lokunin nákvæmlega og hvenær léttir henni?
Mánudaginn 15. maí kl. 23:00 tekur lokunin gildi.
Miðvikudaginn 17. maí kl. 18:00 verður henni aflétt.
Þó ber að hafa í huga að einhverjar truflanir verða á umferð og jafnvel styttri lokanir á götum eða akreinum frá laugardeginum 13. maí til fimmtudags 18. maí þegar verið er að setja upp lokunarbúnað og taka hann niður.
Hvenær er síðasti séns á að fá aðföng fyrir rekstraraðila send inn á svæðið?
Milli kl. 7:00 og 11:00 mánudaginn 15. maí, sem er skilgreindur vörulosunartími Reykjavíkurborgar, er allra síðasti séns á að fá aðföng send inn á svæðið með ökutækjum. Hafa ber í huga að byrjað verður að stilla upp girðingum og lokunum á miðnætti kvöldið áður. Ef þörf er á aðfangasendingum inn á svæðið á meðan á lokununum stendur bendum við á að umferð fótgangandi er leyfð og möguleikinn á að nota trillur eða vagna fyrir hendi.
Get ég keyrt út af svæðinu eftir að því hefur verið lokað?
Nei. Engin umferð ökutækja verður leyfð, inn eða út af svæðinu, á meðan á lokuninni stendur utan lögreglu og viðbragðsaðila. Engar undanþágur verða veittar.
Má ég fara fótgangandi og á hjóli um svæðið?
Hægt verður að fara um svæðið gangandi og á hjóli. Þetta á hins vegar ekki við um svæðið næst Hörpu, sem verður lokað almenningi.
Get ég notað rafhlaupahjólaleigur innan svæðisins?
Hjól rafhlaupahjólaleiganna verða ekki virk innan svæðisins á meðan á lokuninni stendur.
Gengur strætó inni á svæðinu?
Engar almenningssamgöngur verða innan lokunarsvæðisins. Strætó ekur eftir breyttum akstursleiðum á meðan á lokuninni stendur, það er frá kl. 21.00 mánudaginn 15. maí til kl. 19.00 miðvikudaginn 17. maí.