Gráðugur hálfviti
Jeremy Clarkson stjórnandi Top Gear hjá BBC sjónvarpinu, eins vinsælasta bíla- og skemmtiþáttar veraldar, hefur nú sagt álit sitt á fyrrverandi samstarfsmanni sínum, Ben Collins. „Hann er gráðugur hálfviti,“ er sú einkunn sem Clarkson gefur kappakstursmanninum.
Forsaga málsins er sú að í TopGear þáttunum hefur leynipersóna sem kallast The Stig leikið stórt hlutverk um langt skeið. Stig þessi er frábær ökumaður og hefur m.a. sett hvert brautarmetið á fætur öðru á akstursbraut sem sjónvarpsþátturinn hefur til umráða.
Stig er jafnan í hvítum kappakstursbúningi og með hjálm á höfði þannig að aldrei sést hver maðurinn í raun er. Bæði hann og Jeremy Clarkson og meðstjórnendur hans í þáttunum sem og umræddur Stig, reynsluaka bílum á allan mögulegan máta og einnig er fastur liður í þáttunum að einhverjar þekktar persónur aka venjulegum fjölskyldubíl á sem skemmstum tíma einn hring á TopGear-brautinni. Þessa ökumenn hefur leynipersónan Stig undirbúið undir aksturinn og kennt þeim undirstöðuatriði í öruggum hraðakstri.
En svo gerðist það fyrir rúmri viku að maðurinn að baki dulnefninu Stig vildi fá smá geisla af frægðarsól Jeremy Clarkson, James May og Richard Hammond til að skína á sig og gerði uppskátt um það hver maðurinn að baki dulargervinu væri í raun og veru - kappakstursmaðurinn Ben Collins. Collins gat þess einnig að hann hyggðist skrifa bók um feril sinn sem Stig í TopGear þáttunum. Þá var BBC nóg boðið og hótaði málssókn.
En segja má að skaðinn sé orðinn og öll dulúðin í kring um hinn leynilega ökukappa að engu orðin. Jeremy Clarkson hefur hingað til ekki viljað segja neitt um málið fyrr en nú alveg nýverið þegar fréttamenn náðu tali af honum á góðgerðarsamkomu í heimabæ hans Chipping Norton í Oxfordshire. Þar sagði hann þetta: – Eins og þið víst vitið höfum við átt í vanda með The Stig. Nú vita allir hvert hans rétta nafn er, en það er Hálfvitinn. Eiginlega ætti hann að heita fullu nafni Gráðugi hálfvitinn.