Grænfriðungar stöðva Range Rover
18.05.2005
35 mótmælendum frá samtökum Grænfriðunga tókst á mánudag að stöðva framleiðsluna á Range Rover jeppum. Þeir sögðust gera þetta vegna þess að Range Rover og Land Roverbílar væru skaðlegir fyrir umhverfið.
Þetta er í fyrsta sinn sem umhverfissinnar ráðast til atlögu gegn bílaiðnaðinum en löng hefð er fyrir því að þeir herji á olíu- og kjarnorkuiðnaðinn. Hingað til hafa þeir látið nægja að líma miða í rúður stórra og eyðslufrekra jeppa með skilaboðum um að þessi bíll sé umhverfisskaðvaldur og jafnvel mölva rúðurnar í Hummer tröllajeppunum eins og dæmi eru um í Kaliforníu.
Umhverfissinnarnir 35 komust inn í samsetningarverksmiðjuna og læstu sig fasta með keðjum við færibandið þar sem Range Rover jeppar eru byggðir. Talsmaður verksmiðjunnar sagði við fjölmiðla að aðgerðirnar hefðu seinkað smíði um 70 Range Rover bíla og áætlað tap næmi um 400 milljónum ísl. króna.
Stephen Tindale forstjóri Greepeace í Englandi segir við Auto Motor & Sport að það sé mikilvægt að stöðva jeppadelluna sem nú gangi yfir Evrópu áður en hún verði jafn yfirgengileg og í Bandaríkjunum. „Áhrif jeppanna á umhverfið geta orðið ógvænleg,“ sagði Tindale og bætti við að það sé glæpsamlegt að selja bíla eins og Range Rover.
Lögregla kom á staðinn og leysti upp mótmælaaðgerðirnar með því að handtaka 15 af mótmælendunum. Greenpeace valdi að beina aðgerðum sínum að Land Rover / Range Rover að eigin sögn vegna þess að eigandinn, sem er Ford, hefur lagst gegn setningu hertrar reglugerðar í Bandaríkjunum um sparneytnari bíla.
„Glæpsamlegt að selja bíla eins og Range Rover,“ segir Stephen Tindale forstjóri Greenpeace í Bretlandi.