Green NCAP metur Nissan Leaf grænasta bílinn
Ný kynslóð rafbílsins Nissan Leaf hlaut á haustmánuðum fullt hús stiga, fimm stjörnur, hjá óháðu evrópustofnunni Green NCAP fyrir framúrskarandi orkunýtni við mismunandi aðstæður. Við prófanirnar var bílnum bæði ekið í miklum hita og miklum kulda til að mæla orkunýtnina og einnig á evrópskum hraðbrautum. Verkefnið er frumkvæði FIA og bilaklúbba í Evrópu með aðkomu ýmissa samtaka um samgöngur og nýsköpum. Þess má og geta að samgönguráðuneyti Bretlands hefur einnig lagt þessu verkefni lið.
Leaf, sem hefur frá upphafi verið mest seldi rafknúni fimm manna fólksbíllinn á markaðnum, hlaut einnig hæstu einkunn í loftgæðaprófunum (Clean Air Tests) Green NCAP þar sem hann hlaut 10 stig af 10 mögulegum. Green NCAP er hluti Euro NCAP og hefur það hlutverk að stuðla að þróun umhverfislega hreinna og orkunýtinna bíla og veita þeim framleiðendum viðurkenningu sem standa fremst á sínu sviði í þágu aukinna loftgæða og betri auðlindastjórnar.