Greiðari umferð – vopn Dana gegn kreppunni
Hraðbrautarslaufa í Danmörku.
Danska þingið hefur samþykkt með miklum meirihluta atkvæða að fara út í miklar framkvæmdir við vegi og önnur umferðarmannvirki. 94 milljarðar danskra króna verða settir í að bæði bæta vegakerfið og í að bæta almannasamgöngukerfin í landinu. Tilgangurinn er tvíþættur; annarsvegar sá að umferðin verði fljótari og öruggari og hins vegar að koma hjólum atvinnulífsins í gang á ný, en þau hafa verð að hægja verulega á sér í kreppunni undanfarna mánuði.
Sú nýja samgönguáætlun sem þingið hefur samþykkt gildir til ársins 2020. Samkvæmt henni verður ýmsum framkvæmdum flýtt sem samkvæmt eldri áætlun voru fyrirhugaðar mun síðar. Lars Løkke Rasmussen fjármálaráðherra segir við dagblaðið Politiken að einhugur hafi verið í þinginu um nýju áætlunina og niðurstöðutölur hennar skiptust þannig að tveir þriðju hlutar milljarðanna 94 væru grænir en einn þriðji svartur, sem þýðir að tveimur þriðju hlutum verður varið í almannasamgöngur en einum þriðja í vegina.
Nú eru 57.900 manns án vinnu í Danmörku sem þýðir að þar sé 2,1 prósent atvinnuleysi og vaxandi. Samþykkt sagönguáætlunarinnar kemur því á góðum tíma því að strax verða sett í gang tíu mannfrek stórverkefni í vegagerð sem búið var áður að slá á frest. Alls verða fimm milljarðar settir í þessi verkefni. Lars Løkke Rasmussen fjármálaráðherra segir að þessir fimm milljarðar séu hrein viðbót við þá upphæð sem áður hafði verið gert ráð fyrir í fjárlögum fyrir árin 2009 og 2010. –Þetta ætti að koma lífi í byggingariðnaðinn. Þessu til viðbótar höfum við fundið hálfan aukamilljarð til viðhaldsverkefna í vegakerfinu. Á þeim er hægt að byrja strax, þar sem ekki þarf að leggjast í mikla skipulagsvinnu áður en hafist er handa,- segir fjármálaráðherrann í samtali við Politiken.
Meðal þeirra verkefna sem ráðist verður í samkvæmt nýju samgönguáætluninni er léttlestakerfi í borginni Århus á Jótlandi. Léttlestir eru eiginlega nýtísku sporvagnar.
Þá verður umferð gerð greiðari um hringleið nr. 3 umhverfis Kaupmannahöfn en jafnframt verður rannsakað hvort hluti af lausn umferðarvandans á hring 3 gæti falist í einhverskonar almannasamgangnakerfi.