Greiðum fötluðum vegi þeirra
Fundur Umferðarráðs 31. mars 2009 beinir þeim tilmælum til sveitarfélaga og umferðaryfirvalda að bæta merkingar og aðgengi á bílastæðum fatlaðra.
Fatlaðir eiga sama rétt til aðgengis og annað fólk og því er mikilvægt að þessi mál séu í sem bestu lagi. Miða þarf stærð og umhverfi stæðanna við að þau nýtist auðveldlega öllum fötluðum. Bæði þurfa yfirborðsmerkingar og skilti að vera sýnileg, þannig að enginn vafi leiki á að um slíkt stæði sé að ræða.
Umferðarráð skorar á ökumenn sem ekki hafa rétt til að nýta sér stæði fatlaðra til að virða rétt þeirra sem eru háðir þeim. Til að fækka slíkum stöðvunarbrotum þarf að mati Umferðarráðs að endurskoða upphæð gjalds vegna slíkra brota hið fyrsta.