Gríðarlegur munur á verði bílavarahluta milli umboðs og varahlutasölu
Eiganda BMW 520i árg. 1992 eins og myndin er af, brá í brún þegar hann kannaði verð stýrisenda í bílinn. Í þessa bíla eru þeir yfirleitt seldir sem einingar, annarsvegar fyrir vinstra hjól og hins vegar það hægra. Í hvorri einingu eru tveir stýrisendar sem skrúfaðir eru upp í sinn hvorn enda millirörs eða -stangar. Verðið er það sama fyrir báðar. Þær kosta í umboðinu (BL) kr. 49.584 stykkið eða samtals kr. 99.168.
Verðlag á bílavarahlutum á Íslandi virðist stjórnast af einhverjum lögmálum sem eru alls óskyld lögmálum frjálsra markaða og verðlagning umboðsins á stýrisendaeiningunum er síður en svo einsdæmi. Það átti eftir að koma í ljós þegar félagsmaðurinn fyrrnefndi fór með bíl sinn í vetrarskoðun og hjólastillingu. Í ljós kom slit í stýrisendunum og til að vit yrði í hjólastillingunni og til að gæta fyllsta öryggis varð að endurnýja stýrisendana. Það var gert á verkstæði í Hafnarfirði og verkstæðið útvegaði stýrisendaeiningarnar og setti þær síðan í bílinn. Þær voru af gerð sem heitir Vaico og kostuðu báðar samanlagt kr. 17.998. Þannig sparaði eigandinn 81.170 kr. miðað við það að kaupa svokallaðar ,,Original“ einingar af umboðinu.
Auðvitað er rúmlega 81 þúsund króna mismunur ærinn en þar með er ekki öll sagan sögð. Í framhaldinu var kannað hvaða verð neytendur í löndunum í kring um okkur þurfa að greiða fyrir þessa umræddu Vaico stýrisendaeiningar. Leitað var að nákvæmlega sömu hlutum (sömu tegund og sama varahlutanúmeri) í Evrópu. Verðið reyndist hæst í netverslun Amazon. Þar kostuðu bæði stykkin samanlagt kr. 6.190. Netverslun í Luxembourg reyndist sú ódýrasta í Evrópu. Þar var verðið samtals 3.126 krónur.
Fjallað verður nánar um þetta mál og almennt um verðlag á bílavarahlutum hér á fib.is eftir helgina framundan.