Gríðarlegur samdráttur í umferð í október
Umferðin á höfuðborgarsvæðinu í október dróst sama um 20 prósent miðað við sama mánuð í fyrra og kemur til af auknum takmörkunum vegna kórónuveirufaraldursins. Samdrátturinn er eigi að síður ekki jafn skarpur og hann var í vor. Í síðustu viku var ekið örlítið meira en í vikunni áður en samdrátturinn frá því í sömu viku og fyrir ári er mjög mikill. Þetta kemur fram í tölum sem Vegagerðin tók saman.
Umferðin í nýliðnum mánuði, yfir 3 lykilmælisnið Vegagerðarinnar á höfuðborgarsvæðinu, reyndist 20% minni en í sama mánuði á síðasta ári. Þessi samdráttur er gríðarmikill en kemur ekki á óvart í ljósi ástandsins og einnig hefur Vegagerðin fylgst vikulega með umferðinni um þessi snið í október og komið þeim upplýsingum á framfæri á heimsíðu Vegagerðarinnar.
Umferðin dróst mest saman um mælisnið á Hafnarfjarðarvegi eða um rúmlega 28% en minnst dróst umferðin saman um Reykjanesbraut eða um rúmlega 15%.
Af virkum dögum var mest ekið á föstudögum en minnst á miðvikudögum. Þegar öll vikan er skoðuð yfir lengra tímabil er það regla að minnst sé ekið á sunnudögum.
Ef síðasta vika er skoðuð, fyrir umrædd snið, þá kemur í ljós að umferðin í síðustu viku eða viku 44 reyndist 1,2% meiri en í viku 43. Þetta eru svipuð einkenni og voru í umferðinni á síðasta ári. Ef vika 44 er hins vegar borin saman við sömu víku á síðasta ári reyndist hún vera rúmlega 21% minni.
Fram kemur að þetta sé minni samdráttur en varð í bylgju eitt en þá fór samdráttur mest í tæp 43% milli ára í sömu vikum. Það er athugunarvert að samdrátturinn nú er miklu minni þrátt fyrir að smitin séu útbreiddari og meiri, í samfélaginu. Kann þetta að vera samspil öðruvísi sóttvarna og e.t.v. farsóttarþreytu, sem lýst gæti sér í því að samfélagið sé ekki eins reiðubúið að hægja á sér nú og í vor.
Af einstaka sniðum þá dróst umferðin mest saman um snið á Hafnarfjarðarvegi, við Kópavogslæk, eða um 28% en minnst um snið á Reykjanesbraut eða um 17,5%.