Gríðarlegur uppgangur hjá kínverska rafbílaframleiðandanum BYD
Uppgangur hjá kínverska rafbílaframleiðandanum BYD, Bild your dreams, er gríðarlegur um þessar mundir. Elon Musk, forstjóri Tesla, sagði í viðtali í fyrra ekki hafa mikla áhyggjur af þessum vexti bílaframleiðandans. Nú er komið annað hljóð í strokkinn og finnst mörgum samkeppnisaðilum hreinlega stafa ógn af þessum vexti BYD.
Björn Kristjánsson, tækniráðgjafi hjá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, sagði í viðtali á Rás2 í morgun að þessi tegund bíla hefði kimið inn á markað hér á landi á síðasta ári og væri Vatt ehf. umboðsaðili bílsins. Björn sagði að vöxtur BYD væri stór biti fyrir Elon Musk að kyngja. Hann hefði ekki farið fögrum orðum um þessa bíla fyrir nokkrum árum og gert hreinlega grín af þeim. Hann gekk svo langt að segja að framleiðsla á þessum bíl væri ekki líkleg til árangurs.
,,Nú hefur Elon Musk heldur betur áhyggjur en við verðum að hafa í huga að kínverski bílamarkaður er að stækka á ógnahraða. Það verða aðrir bílaframleiðendur að taka alvarlega. Sem dæmi um vöxt BYD þá tóku bílarnir frá þeim fram úr Volkswagen í sölu í Kína á síðasta ári. Fram að því hafði Volkswagen verið á toppnum í 15 ár. Tesla hefur síðan orðið að lúta í minni pokann fyrir BYD að undanförnu í Kína. Evrópskir bílaframleiðendur fylgjast grannt með gangi mála og hafa m.a, leitað í smiðju BYD, sótt þangað tækniþekkingu og keypt af þeim ýmsar tækniútfærslur,” sagði Björn meðal annars í viðtalinu.
Björn sagði að BYD hefði í upphafi byrjað í hönnun og framleiðslu á rafhlöðum en fyrirtækið býr yfir gríðalegri þekkingu á því sviði. Nú nýverið hefði komið á markað ný tegund af drifrafhlöðum fyrir bíla sem er á margan hátt mun öruggara og betra en áður. Til marks um það er Tesla farin að kaupa þessar rafhlöður frá BYD. Japanski bílaframleiðandinn Toyota er líka farinn að sækja þekkingu og tækniútfærslu frá BYD.
Árið 2023 var risastórt hagnaðarár hjá kínverska bílaframleiðandanum BYD og seldi 1,7 milljónir rafbíla. Bílarnir frá BYD vekja mikla athygli í Evrópu og sölutölur fara mjög hæækandi. Þess má geta að bílar frá BYD hafa selt mjög vel í Noregi.
Margt annað áhugavert og upplýsandi efni kom fram í viðtalinu við Björn Kristjánsson tækniráðgjafa FÍB sem nálgast má hér.