Grjótveggir valda áhyggjum
Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, segir að ítrekað hafi verið bent á hættuna af girðingum sem hafa verið notaðar víðsvegar um Reykjavík á milli akreina til að hindra gangandi vegfarendur í að fara yfir stórar umferðargötur. Þetta er meðal þess sem kemur fram í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.
Í umfjöllun blaðsins kemur fram að FÍB hafi gert athugasemdir við þær eftir alvarlegt slys sem varð árið 2008. Í kjölfar banaslyss á Miklubraut sl. laugardag hefur Vegagerðin ákveðið að fjarlægja allar grófar járngirðingar meðfram götum. Í banaslysinu kastaðist maður út úr bíl og hafnaði á járngirðingu en hann missti stjórn á bifreið sinni sem fór við það utan í vegrið.
Í Morgunblaðinu í dag segir Runólfur að í flestum tilfellum ætti vegrið að duga til að skilja akstursstefnur, en ef það er verið að hindra fólk við að þvera götur þá er oftast erlendis reynt að hafa girðingu áður en fólk fer út á götuna, ekki þannig að það komist út á hana miðja. Runólfur segir ennfremur hitt að bjóða upp á fleiri valmöguleika varðandi hindranalaust aðgengi yfir götur t.d með göngubrúm eða undirgöngum.
Í viðtalinu við Morgunblaðið segir Runólfur ennfremur að grjótveggir sem voru nýlega reistir til að hindra að gangandi vegfarendur geti farið yfir Miklubraut við Klambratún, nema á gangbrautarljósum við Reykjahlíð, valda sér áhyggjum, og svo virðist sem horft hafi verið framhjá ákveðnum hættum sem grjótveggir skapa og þeir eru ekki viðurkennt umferðarmannvirki.