Grunur um ólöglegan hugbúnað hjá Hyundai og Kia
Grunur er um að settur hafi verið ólöglegur hugbúnaður í yfir 210 þúsund dísilbíla hjá bílaframleiðendunum Hyundai og Kia. Lögreglan hefur hafið rannsókn á málinu en þetta er ekki í fyrsta skipti sem mál af sama tagi hefur komið upp þar sem svindlað er á útblæstri frá dísilbílum. Frægt er svindlið hjá Volkswagen sem upp kom 2015.
Nú hefur saksóknari í Frankfurt sakað Hyundai og Kia um að nota hugbúnað sem gefur ekki rétta mynd á útblæstri í prófunum. Um er að ræða 210 þúsund dísilbíla sem seldir voru árið 2020.
Ólöglegi hugbúnaðurinn sem sagður er hafa verið notaður hlýtur að hafa dregið úr útblásturshreinsuninni „gífurlega“ eða jafnvel slökkt alveg á henni þegar bílarnir óku um vegi, að sögn saksóknara í Frankfurt.
Fréttir herma að lögreglan hafi farið inn í átta byggingar í gagnaöflun hjá viðkomandi bílaframleiðendum í Þýskalandi og Lúxemborg. Talsmaður Hyundai Motor Group, sem er fulltrúi Hyundai og Kia, hefur staðfest rannsóknina og segir að bílaframleiðendurnir séu í samstarfi við yfirvöld við rannsóknina.