Guðfaðir Formúlunnar á förum?
30.05.2005
Bernie Ecclestone tv. ásamt Max Mosley forseta FIA.
Erlend bílatímarit segja það líklegt að Bernie Ecclestone einvaldur í Formúlu 1 til fjölda ára hugleiði að draga sig út úr rekstri Formúlunnar og taka við starfi hjá FIA sem æðsti yfirmaður keppnismála í Formúlu 1.
Formúla 1 eða F1 er í raun stórfyrirtæki sem skipuleggur og heldur Formúlu 1 kappakstursmótin og allt sem þeim tengist. Reksturinn er gríðarlega umfangsmikill og einskorðast alls ekki við sjálft keppnishaldið heldur líka sýningarrétt frá mótunum í sjónvarpi, auglýsingar, almannatengsl, flutninga og hvaðeina. Bernie Ecclestone var til skamms tíma aðaleigandi F1 fyrirtækisins og einvaldur stjórnandi. Hann seldi þrjá fjórðu eignarhluta fyrirtækisins fyrir nokkru en sat áfram við stjórnvölinn sem bæði forstjóri og stjórnarformaður. Hann er nú sagður tilbúinn til að stíga til hliðar og leyfa meirihlutaeigendunum að stjórna eftir þeirra eigin höfðum.
FIA er eins konar alheimsíþróttasamband bílaíþrótta auk þess að vera heimssamtök bifreiðaeigenda sem m.a. FÍB er aðili að. Forseti FIA, Max Mosley, er gamall félagi Eccelstone úr kappakstrinum. Mosley hefur komið á fót nýju starfi yfirmanns Formúlu 1 keppninnar og vill fá hinn 78 ára gamla Bernie Eccelstone til að gegna stöðunni. Taki hann við stöðunni hjá FIA verður hann óhjákvæmilega að segja af sér sem forstjóri og stjórnarformaður Formúlu 1 fyrirtækisins sem nefnist fullu nafni Formula One Holdings, Formula One Administration.