Hægir á framleiðslunni hjá Toyota vegna skorts á íhlutum
Japanski bílaframleiðandinn Toyota áætlar að skera þurfi niður framleiðsluna um 100 þúsund bíla í sumar á alþjóða vísu vegna skorts á hálfleiðurum og öðrum íhlutum. Hægja mun einnig á framleiðslunni í Japan tímabundið.
Bílaframleiðendur um allan heim eru enn að súpa seyðið af heimsfaraldrinum og svo hefur stríðsástandið í Úkraínu heldur ekki verið að að bæta ástandið.
Toyota tilkynnti ennfremur að fyrirtækið sæi hins vegar ekki fram á röskun í framleiðslunni á næsta árið en það er gert ráð fyrir að framleiddir verði 9,7 milljónir bíla eins og fyrri spár höfðu gert ráð fyrir. Fyrirtækið áformar að framleiða 850 þúsund farartæki að meðaltali á heimsvísu á mánuði á tímabilinu júní til ágústloka í sumar.