Hægir á umferð á höfuðborgarsvæðinu
Umferðin á höfuðborgarsvæðinu í nóvember jókst um 4,4 prósent um þrjú mælisnið Vegagerðarinnar. Umferðin í ár hefur aukist um 3 prósent sem er þrisvar sinnum minni aukning en í fyrra á sama tíma. Þannig hægir verulega á aukningunni í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu. Þetta kemur fram í tölum frá Vegagerðinni.
Umferðin í þremur mælisniðum Vegagerðarinnar í nóvember sl. jókst um 4,4% miðað við sama mánuð á síðasta ári. Mest jókst umferðin yfir mælisnið á Vesturlandsvegi ofan Ártúnsbrekku eða um 5,8% en minnst um mælisnið á Hafnarfjarðarvegi, sunnan Kópavogslækjar eða um 2,9%. Núna hefur umferðin í nóvember aukist að jafnaði um rétt tæp 3% á ári að meðaltali frá árinu 2005, að telja. Þessi aukning er rétt yfir meðalaukningu allra mánaða sem er 2,8% á sama tímabili.
Umferðin jókst hlutfallslega mest á sunnudögum
Núna hefur umferðin aukist um 3%, frá áramótum og er þetta tæplega þrisvar sinnum minni aukning en á sama tíma fyrir ári síðan.Umferðin í nýliðnum mánuði jókst hlutfallslega mest á sunnudögum eða um 13,6% en engu að síður var minnst ekið þá daga. Minnst jókst umferðin á laugardögum eða um 1,1%. Mest var ekið á föstudögum en minnst á mánudögum, virka daga.
Núna er búist við því að umferðin í desember nk. muni geta aukist um 3,5% miðað við sama mánuð á síðasta ári. Gangi það eftir mun umferðin nú í ár aukast um rétt rúmlega 3% miðað við árið á undan. Þó að þessi vöxtur sé lítill í samanburði við síðustu ár er hann rétt rúmlega yfir meðalvexti frá árinu 2005 og mun viðráðanlegri að stærð en undanfarin tvö ár.