Hægt verður að fylla á vetnisbíla hringinn í kringum landið
Franska fyrirtækið Qair hefur keypt 50% hlut Orkunnar í Íslenska vetnisfélaginu. Hugmyndin er að byggja upp vetnisstöðvar hringin í kringum Ísland. Íslenska vetnisfélagið er dótturfélag Orkunnar. Vetnisframleiðsla mun fara fram á Grundartanga. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Orkunni.
Ætlunin er að fjölga vetnisstöðvum félagsins úr tveimur í sex. Verður þá hægt að fylla á vetnisbíla hringinn í kringum landið en um 30 vetnisbílar á suðvestur horninu í dag.
Margir bílaframleiðendur hafa sýnt vetnistækninni áhuga og er von á fjölda nýrra gerða vetnisbíla á komandi árum. Ætti vetnið m.a. að henta vel sem orkugjafi fyrir vöruflutninga þar eð vetnistækin þyngja ekki flutningabílana og stuttan tíma tekur að fylla tankinn. Rafgreinir verður settur upp á Grundartanga til að framleiða meira vetni fyrir íslenska markaðinn.
Mikill áhugi er fyrir þessum græna valmöguleika, sérstaklega þegar kemur að þungaflutningum þar sem ökutækin munu draga verulega úr kolefnisspori, og er því áætlað að vetnisbílum fjölgi hratt þegar innviðir styrkjast, bæði fólksbílar og flutningabílar.
Hvað er vetni? Til upplýsinga þá er vetni lofttegund sem er til staðar í miklu magni í alheiminum en á jörðinni fyrir finnst hún að mestu leyti í vatni og lífrænum efnasamböndum. Nýta má vetni til að knýja bíla en þá þarf hreint vetni til að setja á bílana. Ein leið til að framleiða vetni er með rafgreiningu vatns sem skilur að vetni og súrefni úr vatnssameindunum. Rafgreining er orkufrek og byggir á raforkunotkun, en að loknu framleiðsluferlinu er vetninu safnað saman og geymt á þrýstihylkjum sem orkuberi rafmagns í sama skilningi og rafhlöður. Þar sem rafmagn á Íslandi er framleitt með endurnýjanlegum orkugjöfum þá er vetni framleitt hér einnig endurnýjanlegt.