Hækka álagningu
ESSO hækkaði upp úr miðnætti bensínið um 2 krónur á lítra og dísilolíuna um 0,50 krónur á lítra. Bæði Olís og Shell komu í kjölfarið og hækkuðu eldsneytið hjá sér. Eftir hækkunina er algengasta verð með þjónustu frá 116,60 til 116,70 krónur á bensínlítra og í sjálfsafgreiðslu á þjónustustöð 111,60 til 111,70 krónur á lítra. Algengt verð á dísilolíu með þjónustu er 113,30 krónur á lítra og 108,30 í sjálfsafgreiðslu. Þessi hækkun kemur í kjölfar 1,50 krónu hækkunar á bensínlítra á fyrsta virka degi ársins 2006. Til samanburðar þá er heimsmarkaðsverð á bensíni um þessar mundir 2,50 krónum hærra en það var að meðaltali í liðnum desembermánuði. Hækkun gömlu olíufélaganna um 3,40 til 3,50 krónur á lítra á fyrstu dögum nýs árs kemur til viðbótar um 2,50 króna hækkun á álagningu sem olíufélögin tóku til sín á síðasta ársfjórðungi ársins 2005 samanborið við álagninguna fyrstu 9 mánuði þess sama árs. Fjallað var um hækkun álagningar með tölulegum gögnum í frétt hér á fib.is þann 3. janúar sl. (sjá neðar).
Heimsmarkaðsverðið lækkaði lítilega í gær og fyrradag en samt hækka ESSO, Olís og Shell verðin hjá sér í dag. Dótturfyrirtæki ESSO, EGÓ er búið að hækka bensínið í 110,20 krónur.
Atlantsolía hefur ekki hækkað sín verð og selur bensínið á 108,30 krónur á lítra og á meðan það varir verður að telja líklegt að Orkan hækki ekki sína álagningu eins og móðurfyrirtækið Shell. ÓB var ekki búið að breyta verðum nú undir kvöld.