Hækkun bílastæðagjalda enn einn naglinn í kistu íslenskrar verlsunar
Eins og fram hefur komið hyggst Reykjavíkurborg hækka bílastæðagjöld á gjaldsvæði 1 um 40% í miðborg Reykjavíkur. Þá verður tími gjaldtöku lengdur frá 18 til 21 á virkum dögum og laugardögum. Eins verður tekin upp gjaldskylda á sunnudögum á gjaldsvæðum 1 og 2. Tilllaga þess efnis var samþykkt í umhverfis- og skipulagsráði í síðustu viku og staðfest í flýtimeðferð í borgarráði. Stefnt er að því að þessi nýju bílastæðagjöld taki gildi með haustinu.
Í samanburði við aðrar höfuðborgir á Norðurlöndum kostar klukkutími svipað í miðborgum Oslóar og Stokkhólms. Kaupmannahöfn sker sig úr í þessum samanburði en þar kostar klukkustundin rúmar 800 krónur á virkum dögum. Gjaldið hins vegar á kvöldin er rúmar 300 krónur. Hins vegar víðar á Jótlandi eru bílastæðagjöld mun lægri eða um 450 krónur klukkutíminn.
Í þessu sambandi er vert að benda á að tvö gjaldsvæði eru í og við miðbæ Akureyrar, P1 og P2. Gjald fyrir hverja klst. er 200 kr. á svæði P1 og 100 kr. á svæði P2. Gjaldskyldutími er sá sami á báðum gjaldsvæðum, frá kl. 10:00 – 16:00 virka daga.
Óánægju gætir með þessa hækkun sem liggur fyrir dyrum og finnst mörgum ansi langt seilst ofan í vasa bifreiðaeigenda og þá ekki síst á þeim tímum þegar verðbólga er í hæstum hæðum. Álögur á bíleigendur eru alltaf að verða meiri.
Að okkar mati til háborinnar skammar
,,Framkoma meirihlutans í borginni í garð kaupmanna í miðbænum er að okkar mati til háborinnar skammar. Við erum vægast sagt mjög óánægðir með þessa fyrirhuguðu hækkun á bílastæðagjöldum. Meirihlutinn virðist varla skilja hvað viðskipti snúast um. Ef maður horfir á þetta frá samkeppnissjónarmiðum þá eru á sama tíma ókeypis bílastæði í Kringlunni og Smáralind. Maður getur alveg hugsað í beinu framhaldi hvaða erindi á almenningur lengur í miðborgina. Bara kannski til eins að borga meira í stöðumælagjöld sem í dag er ekkert orðið annað en aukaskattur. Þessi hækkun bitnar helst á rótgrónum kaupmönnum í miðbænum sem stuðla að íslenskri verslun. Þetta gæti allt eins orðið enn einn naglinn í kistu íslenskrar verlsunar sem er á faraldsfæti úr miðbænum,“ sagði Fannar Gunnarsson í gleraugnamiðstöðinni Profil-Optik við Laugaveg.
Fram kemur hjá Reykjavíkurborg að tilgangurinn með hækkun bílastæðisgjalda sé meðal annars að sem flestir hafi aðgang að bílastæðum í miðborginni því gjaldskyldan stuðlar að stöðugri færslu bifreiða á svæðinu. Gjaldskylda á bílastæðum Reykjavíkur hefur þann tilgang að framfylgja markmiðum Aðalskipulags Reykjavíkur og stuðla að fjölbreyttri notkun bílastæða í borgarlandi með því að stýra eftirspurn eftir bílastæðum og styðja þannig við þjónustuaðila, gesti og íbúa.
Niðurstöður talninganna nú, sem og árin 2019 og 2021, sýna að bílastæði við götukanta á gjaldsvæðum P1 og P2 eru að jafnaði fullnýtt á kvöldin á meðan nægilegt framboð er af bílastæðum í bílahúsum borgarinnar. Nýting var talin við lok gjaldskyldu kl. 18 og svo aftur kl. 20 og sýndi talning að nýtingin jókst eftir því sem leið á kvöldið. Í samræmi við niðurstöður talninga felur tillagan því í sér lengingu á gjaldskyldutíma til kl. 21 á gjaldsvæðum P1 og P2.