Hækkun bílastæðagjaldanna 41% að meðaltali
Að sögn Guðmundar Ásgeirssonar rekstrarstjóra Icepark í Leifsstöð á Keflavíkurflugvelli er hækkun stöðugjalda við Leifsstöð að meðaltali kring um 41%. Guðmundur hafði samband í tilefni af fyrri frétt okkar um hækkanirnar og viðbrögð starfsmanns Icepark sem svaraði í síma fyrirtækisins í morgun. Hann sagði að meginástæða hækkananna nú væri 27 prósenta hækkun vísitölu frá því að síðasta hækkun átti sér stað en það var árið 2006.
Sá munur sem er á 27% vísitöluhækkun og allt að 50% gjaldskrárhækkun er flestum augljós.
En hækkunin nú er að sögn Guðmundar misjafnlega mikil eftir því hversu lengi bílum er lagt á gjaldstæðin. Þannig kostaði t.d. hver dagur fyrstu sjö dagana 800 kr. en næstu sex dagana væri dagsverðið 600 kr. Þessvegna væri hækkunin ekki 50% heldur 41%.
Guðmundur sagði ennfremur að bílastæðaverðið við Leifsstöð væri með því lægsta í Evrópu. Það væri að vísu lægra á Kastrup en miklu hærra á Gardemoen við Osló svo dæmi séu nefnd. Loks væri það ekki Icepark sem hefði ákvörðunarvald um upphæð stöðugjaldanna heldur væri það sá aðili sem fer með forræði Keflavíkurflugvallar og Leifsstöðvar, sem og annars sem viðkemur flugi á Íslandi, en það er hið opinbera hlutafélag, Isavia ohf. sem áður nefndist Flugmálastjórn. Stöðugjöldin sem innheimtast í Leifsstöð skiptast milli Icepark ehf og Isavia í tilteknum hlutföllum. Samkvæmt heimildum sem fréttavefur FÍB telur traustar er skiptingin þannig að í hlut ríkishlutafélagsins Isavia koma 67 prósent en 33 prósent falla til Icepark. Guðmundur staðfesti að um hlutfallslega skiptingu innkomunnar væri að ræða en vildi ekki staðfesta hver hlutföllin væru, kvaðst ekki hafa heimild til þess.
Að mati FÍB er flestur samanburður við bílastæðagjöld á alþjóðlegum flugvöllum Evrópu lítt marktækt innlegg í umræðu um þessi ofurgjöld við Leifsstöð. Landrými er yfirleitt takmarkað í Evrópu meðan á Miðnesheiði er ekki beint plássleysinu fyrir að fara. Þá eru bílastæðin sjálf vart boðleg fyrir 800 kall á sólarhring. Þetta eru útistæði í miklu veðravíti og eftirlit með bílunum er rýrt ef það er þá nokkurt. Eftirlitsmyndavélar eru einungis við inn- og útkeyrsluhlið og bílarnir eingöngu á ábyrgð eigenda sjálfra meðan þeir standa á stæðunum.