Hænufet í rétta átt?
Volkswagen reyndi í gær, mánudag að róa eigendur VW bíla í Bandaríkjunum og þýska verkalýðsforingja sem hafa verið ósáttir við viðbrögð fyrirtækisins eftir að útblástursfölsunarmálin komust í hámæli, Tilboðið sem bandarískir eigendur tiltekinna VW dísilbíla fengu í gær er þúsund dollara virði. Helming upphæðarinnar má nota á þjónustustöðvum Volkswagen og Audi til lagfæringa á þeim dísilfólksbílum sem ekki standast bandarísk mengunarmörk. Um það bil 500 þúsund VW eigendur geta fengið þessa innleggsnótu í tvennu lagi; annars vegar í formi VISA greiðslukorts með 500 dollara inneign og hins vegar VW korti með 500 dollara inneign. Síðarnefnda kortið gildir einvörðungu sem greiðsla á þjónustustöðvum VW samsteypunnar. En þetta er ekki allt: Eigendum dísilbílanna er líka boðið upp á fría vegaþjónustu í þrjú ár.
Viðbrögð við þessu tilboði VW eru blendin og enginn þeirra sem fréttastofa Reuters ræðir við telur það fullnægjandi heldur einungis örstutt spor í rétta átt. Athyglisvert er að tilboðið kom fram í gær þegar frétt birtist um viðræður Volkswagen við mengunarvarnastofnanir Bandaríkjanna og Kaliforníuríkis. Í þeim viðræðum hefur m.a. verið fjallað um hugsanleg endurkaup Volkswagen á svindlbílunum af eigendum þeirra.
Í Þýskalandi hefur mengunarsvindlmálið leitt til vaxandi spennu ot tortryggni milli stjórnenda VW og forystusveitar verkalýðsfélaga í bílaiðnaðinum. Verkalýðsforingjar tortryggja mjög fyrirætlanir VW um fyrirhugaðan árlegan eins milljarðs evra niðurskurð í bílaframleiðslunni til ársins 2019.