Hæst hlutfall ESC í Svíþjóð

Hæsta hlutfall bíla með ESC skrensvörn í heiminum er í Svíþjóð. Á síðasta ári voru 99 prósent allra skráðra nýrra bíla með ESC skrensvörn. Í Frakklandi var þetta hlutfall einungis 41 prósent og í Evrópu sem heild var það 60 prósent.

 Greinilegt er að hvorki bílakaupendur né sölumenn nýrra bíla í Frakklandi og Ítalíu  hafa meðtekið fagnaðarerindið um hina tölvustýrðu ESC skrensvörn, en þessi búnaður er talinn vera næstum jafn mikil slysavörn og lífgjafi fólksins í bílnum og öryggisbeltin. Sænsk stjórnvöld hafa reyndar gert slíkan búnað í nýjum fólksbílum að skyldubúnaði í öllum fólksbílum og FiA, alþjóðasamtök bifreiðaeigendafélafga, sem FÍB er aðili að, leggja eindregið til við félagsmenn sína að þeir festi ekki kaup á nýjum bílum án ESC búnaðar. Svo virðist sem Frakkar og Ítalir hafi einna síst meðtekið boðskapinn því að einungis 41 prósesnt nýrra og nýskráðra bíla í Frakklandi eru með ESC búnaði og 56 prósent nýrra bíla á Ítalíu.

 Svíþjóð með sín 99 prósent og Þýskaland með 80 prósent nýrra bíla með ESC búnað eru þau lönd sem lyfta Evrópumeðaltalinu. Spánn kiemur svo inn í þriðja sætið á þessum ESC lista en þar voru á síðasta ári 72 prósent nýrra bíla með ESC. Bretland er svo í meðallagi en þar voru 60 prósent nýrra bíla með ESC í fyrra.

 Meginástæða þess hve lágt hlutfall nýrra bíla í Frakklandi í fyrra var með ESC búnað er sú að þegar ríkið greiddi út sérstakt skilagjald fyrir gamla bíla sem skipt var út fyrir mjög sparneytna smábíla af ódýrustu og einföldustu undirgerðum á árunum 2008 og 2009. Þá fengust slíkir bílar fæstir með ESC búnaði. Þetta tímabundna skilagjald í Frakklandi leiddi því til þess að hlutfall bíla í umferð með ESC búnað lækkaði í Frakklandi milli áranna 2008 og 2009.

http://www.fib.is/myndir/Espstatistik.jpg

 Vísir að skrensvörn eða skrikvörn sem eiginlega var spólvörn, framleidd af íhlutaframleiðandanum Bosch, kom fyrst fram í fjöldaframleiddum Mercedes og BMW bifreiðum á níunda áratuginum. Miðað við þau kerfi sem tíðkast í nútímabílum gætu gömlu kerfin þótt dálítið frumstæð nú. Þau virkuðu í stórum dráttum þannig að þau slógu af bensíngjöfinni og hemluðu niður þau drifhjól bílsins sem mest spóluðu hverju sinni. Þetta þótti virka afar vel, sérstaklega í vetrarfæri.

 Bosch hélt stanslaust áfram að þróa tæknina og sama gerðu aðrir undirframleiðendur. Árið 1994 kynnti Bosch í fyrsta sinn Elektronisches Stabilitätsprogramm (ESP). (FiA nefnir þessi stöðugleikakerfi einu nafni ESC en sú skammstöfun stendur fyrir Electronic Stability Control). Kerfið varð svo staðalbúnaður í S- lúxusbensanum frá og með árgerð 1995 og kom reyndar um svipað leyti fram í bæði BMW og Volvo bílum.  ESC kerfin vinna þannig að skynjarar mæla g-krafta á bílinn t.d. við hröðun og hemlun og í beygjum auk þess hvort hjól eru að spóla eða hemla. Tölva slær þá af bensíngjöf og ýmist hemlar eða slakar á hemlun einstakra hjóla í því skyni að draga úr skrensi og rennsli og koma jafnvægi á bílinn og fá hann til að ná veggripi.

Hjá Mercedes uppgötvuðu menn mjög fljótt að ESP kerfið þeirra stórfækkaði slysum og óhöppum. Þá gerði sænska vegagerðin rannsókn árið 2003 og aftur árið 2005 á gildi stöðugleikakerfanna sem báðar staðfestu tölfræðilega hvílík slysavörn og lífgjöf kerfið í raun er. Niðurstöðurnar eru í stórum dráttum þær að ESC (ESP) kerfi fækka slysum og minnka líkur á dauða og alvarlegum áverkum um 25 prósent að meðaltali og í bleytu, ís og snjó um 50 prósent.