Hæsta endurkrafan 5,5 milljónir
Endurkröfunefnd samþykkti á síðasta ári í 134 málum af 149 að vátryggingafélög ættu endurkröfurétt á hendur tjónvöldum sem höfðu valdið tjóni „af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi,“ eins og það er orðað í umferðarlögum.
Flest málanna voru vegna ölvunar eða lyfjaáhrifa tjónvalds, en einnig vegna réttindaleysis, ofsa- eða hættuaksturs, vanbúnaðar ökutækis. Þá var í þremur málum um að ræða beinan ásetning ökumanns um að valda tjóni. Þetta kemur fram í tilkynningu frá nefndinni varðandi síðasta starfsár. Umfjöllun um málið kemur fram á mbl.is.
Þá kemur fram í umfjöllun mbl.is að fjöldi mála jókst talsvert milli ára, en árið 2017 bárust nefndinni 94 mál og voru þar af samþykkt 82 þeirra að öllu eða einhverju leyti. Á síðastliðnum fimm árum, þ.e. á árabilinu 2014 til 2018, var meðalfjöldi nýrra mála, sem bárust endurkröfunefnd, 119 á ári.
Hæsta einstaka endurkrafan í fyrra var 5,5 milljónir, en tvær næstu 5 milljónir. Samtals 53 endurkröfur fyrir meira en hálfa milljón og var samtals upphæð endurkrafna á síðasta ári 105 milljónir. Á árinu 2017 námu hins vegar samþykktar endurkröfur alls tæpum 66 milljónum króna.