Hæstaréttardómur um bílalán
FÍB fagnar því að bæði Landsbankinn og Lýsing hafi lýst því yfir í kjölfar nýfallins dóms Hæstaréttar, að þau hyggist fylgja fordæmi dómsins og hafi hafið undirbúning að endurreikningi gengislána til skamms tíma.
Málið varðaði bílalán með ólögmætri gengistryggingu sem gerður var árið 2007. Lánið var endurreiknað árið 2011 miðað við vexti ákveðna af Seðlabankanum. Í málinu var deilt um það hvort fyrri dómar Hæstaréttar í málum 600/2011 og 464/2012 hefðu fordæmisgildi í málinu og þá hvort undantekningarreglan um gildi fullnaðarkvittana ætti einnig við um endurreikning lána skamms tíma eins og bílalána. Hæstiréttur taldi að við endurreikning lánsins væri bankanum óheimilt að krefjast frekari greiðslna en inntar höfðu verið af hendi á því tímabili þegar staðið var í skilum með greiðslu lánsins, enda voru uppfyllt öll skilyrði sem dómurinn setur fyrir þeirri niðurstöðu.
Að mati FÍB eyðir dómurinn réttaróvissu sem ríkt hefur varðandi beitingu undantekningarreglunnar um gildi fullnaðarkvittana við endurreikning gengislána til skamms tíma, eins og til dæmis bílalánum.