Hætt við hækkun bílaskatta
Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis ákvað í vikunni að fella út úr frumvarpi til fjárlaga hækkun á gjöldum sem nema hátt í 1,6 milljörðum króna. Hætt var við að hækka m.a. bifreiðagjald, vörugjald á bensín, sérstakt bensíngjald og olíugjald. Að auki var ákveðið að hverfa frá áformum um hækkun á nokkrum öðrum gjöldum.
Til að mæta tekjutapinu var ákveðið að hætta við afnám afdráttarskatts af vöxtum sem greiddir eru úr landi en það er talið skila 1.600 milljóna króna tekjum í ríkissjóð.
Helgi Hjörvar formaður efnahags- og viðskiptanefndar sagði á þingi í gær að þessar breytingar drægju úr neikvæðum verðlagsáhrifum fjárlagafrumvarpsins um liðlega 0,1 prósent ,,... þar með hækka verðtryggðar skuldir heimilanna um hátt í tveimur milljörðum króna minna en annars hefði orðið en heildarniðurstaðan er jákvæð um 10 milljónir króna fyrir ríkissjóð,"
Í athugasemdum FÍB varðandi fjárlagafrumvarpið sagði m.a:
Varðandi boðaðar hækkanir á eldsneytisgjöldum ... þá varar FÍB sérstaklega við þeirri þróun sem átt hefur sér stað á undanliðnum árum varðandi stórfellda hækkun skatta á eldsneyti .... Eitt sem er sláandi er gríðarleg hækkun almenna vörugjaldsins og kolefnisskattsins, skatta sem renna til annara verkefna en vegagerðar. Almennt vörugjald af bensíni, sem er föst krónutala á lítra, mun hækka um 174% frá 2008 til 2013 eða úr 9,34 kr/l upp í 25,60 kr/l miðað við forsendur frumvarps til fjárlaga 2013. Nýr skattur, kolefnisgjald, sem ekki var til fyrr en 2010 er nú 5 kr/l. Þessir skattar, sem á leggst vsk. kosta neytendur um 26.70 krónur á hvern lítra umfram bensínskatta 2008. Á sama tíma hefur innkaupsverð hækkað um tæplega 88% eða úr 52,45 kr/l í 98,55 kr/l. Árskostnaður fjölskyldna hefur hækkað um 65% á þessu tímabili (miðað við 2000 lítra neyslu á ári) eða úr 310 þúsund krónum í 512 þúsund krónur.
Rekstur heimilisbílsins er um 15,5% af útgjöldum heimilanna. Hækkun eldsneytis og hækkun á verði nýrra sem notaðra bíla hefur bitnað illa á flestum heimilum í landinu. Heimili í dreifbýli sem þurfa að sækja þjónustu eða vinnu um langan veg eru oft í verstu stöðunni. Þessar hækkanir hafa aukið á vandamál heimilanna og vega þungt í daglegum rekstri. Bílakostnaðurinn hefur einnig veruleg áhrif á vísitölu neysluverðs með tilheyrandi hækkun á verðtryggðum lánum.
Það er ánægjulegt að ákveðið var að gera þessar breytingar á fjárlagafrumvarpinu í anda tillagna FÍB.