Hætta á að holur myndist í þessu tíðarfari
Þegar þíða kemur í kjölfar frosts og kulda eða þegar miklir umhleypingar eru eykst hættan á því að holur myndist í bundnu slitlagi, malbiki og klæðingu. Holur hafa nú þegar verið að koma fram á götum höfuðborgarsvæðisins um helgina. Eins og dæmin hafa sannað í gegnum tíðina hafa bílar orðið fyrir tjóni við að aka ofan í djúpar holur. Vegfarendur er því beðnir að sýna sérstaka árvekni og aka ætíð eftir aðstæðum. Það getur tekið skamman tíma fyrir holu að myndast, jafnvel djúpa holu sem getur leitt til tjóns.
Ökumönum er bent á tilkynningasíðuna www.vegbot.is þar sem hægt er að tilkynna tjón, skrá holu og skemmdir í vegi. Sé það gert með snjalltæki á staðnum fylgir staðsetning tilkynningunni. Forritið veit á hverra forræði allar götur og vegir á landinu eru og fer hver tilkynning til rétts veghaldara.Fjölmargar tilkynningar hafa nú þegar borist gegnum síðuna sem áfram sendast svo á viðkomandi veghaldara sem ætti að geta brugðist við með skömmum fyrirvara.
20 tilkynningar bárust lögreglunni
Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust hátt í 20 tilkynningar og aðstoðarbeiðnir í gær og nótt vegna bifreiða sem höfðu tjónast eftir að hafa verið ekið ofan í holur. Um var að ræða eina holu í íbúðahverfi, aðra holu í hringtorgi og nokkrar holur á stofnbraut, allt í austurborginni
Í flestum tilvikum neyddust ökumenn til að skipta um dekk áður en þeir gátu haldið áfram leiðar sinnar. Lögregla hefur látið veghaldara vita og gert honum að gera ráðstafanir en beinir því til ökumanna að gæta varúðar. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu vill beina því til ökumanna að gæta varúðar til að skemma ekki bifreiðar sínar.
Reykjavíkurborg sér um að fylla í brotholur með köldu viðgerðarmalbiki. Fyllt er í þær holur sem vart verður við í borgarlandinu, eða um ábendingar þar um. Það er gert allt árið, þótt veturinn, sérstaklega síðla vetrar þegar snjóa leysir, sé aðaltíminn í þessu verkefni.
Einnig er bent á að verði vegfarandi fyrir tjóni á ökutæki er hægt að koma tilkynningu um það inn á heimasíðu Vegagerðarinnar og fylla þar út tjónstilkynningu með rafrænum hætti: https://www.vegagerdin.is/thjonusta/tilkynning-um-tjon/.
Veðurspáin fyrir næsta sólarhring gerir ráð fyrir suðlæg átt, 5-13 m/s og væta með köflum í dag, en þurrt að mestu um landið norðaustanvert. Hiti víða 0 til 7 stig, hlýjast syðst. Sunnan og suðaustan 10-15 og talsverð rigning á morgun, en hægara og úrkomulítið norðaustanlands. Hiti 3 til 12 stig, hlýjast fyrir norðan.