Hætta að sekta fyrir notkun nagladekkja
Lögreglan á Suðurlandi vill taka fram að hún er ekki að sekta ökumenn bifreiða, sem eru komnar á nagladekk, þótt slík dekk séu almennt aðeins leyfð frá 1. nóvember til 15. apríl.
Veturinn er hins vegar byrjaður að gera vart við sig og hitastig oft á tíðum undir frostmarki á nóttunni og viðbúið að frost og hálka séu byrjuð að láta á sér kræla þetta árið.
Lögreglan hefur fengið mikið af fyrirspurnum um nagladekk frá ökumönnum og því er það undirstrikað að ökumenn bifreiða, sem eru búnar nagladekkjum, eiga ekki sekt yfir höfði sér.
Ökumenn ekki heldur sektaðir fyrir notkun nagladekkja á höfuðborgarsvæðinu
Á Facebooksíðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að ökumenn verði ekki sektaðir fyrir notkun nagladekkja, enda vetrarfærð í borginni.
„Þess ber þó að geta að þótt það sé hálka í dag er ekki endilega hálka á morgun og því betra að seinka notkun nagladekkja eins og hægt er - eða nota önnur og umhverfisvænni dekk,“ segir á facebooksíðu lögreglunnar. Í færslunni er bætt við að hálkan í morgun og snjór á aðliggjandi heiðum þýði að eðlilegt sé að hefja notkun nagladekkja."