HÆTTA! Svartklætt fólk með heyrnartól í eyrum og án endurskins í myrkrinu
Endurskinsmerki á fatnaði gangandi í umferðinni eru sjaldséð á þessu hausti. Þegar svo við bætist að algengustu litir vetrarfatnaðar eru dökkir og að mjög margir, einkum ungir vegfarendur eru oft með heyrnartól í eyrum að hlusta á tónlist og heyra því ekki í umferðinni í kring um sig, þá er hætta á ferðum.
Skammdegið er gengið í garð, mikið hefur rignt að undanförnu og skyggni því verið eins slæmt og hugsast getur og það eykur enn á slysahættuna í vetrarmyrkrinu. Athuganir í næstu grannlöndum okkar staðfesta að sex af hverjum tíu gangandi vegfarendum á aldrinum 18-29 ára eru svartklæddir, 84 prósent eru án endurskinsmerkja og þrír af hverjum fjórum þeirra eru með heyrnartól í eyrunum.
40 prósent slysa sem fótgangandi verða fyrir í umferðinni eiga sér stað í skammdegismyrkrinu. Slys af þessu tagi eru oftast alvarleg – fólk lætur lífið í þeim eða slasast alvarlega. Oftast verða þau við árekstur manneskju við bíl eða vélknúið ökutæki. Aðdragandinn er oft sá að ökumaður sá ekki hinn gangandi í myrkrinu og hinn gangandi uggði ekki nóg að sér, var dökkklæddur, heyrði ekki í aðvífandi bílum eða ökutækjum, treysti því að ökumenn sæju hann. Hann gerði sér heldur enga grein fyrir því að ökumenn geta illmögulega greint dökkklædda manneskju án endurskinsmerkja í myrkrinu lengra framundan sér en í mesta lagi 20-30 metra.
Þegar gangandi vegfarendur eru spurðir um hversvegna þeir beri engin endurskinsmerki er algeng svör þau að þeir hafi gleymt þeim, þeir viti ekkert hvar megi nálgast þau, eða þá að það sé ljótt og hallærislegt að að hengja svoleiðis dinglumdangl á sig. Þá hljóti götulýsing og ljós bílanna að duga til að gera mann sjáanlegan og endurskinsmerkin því óþörf.
Síðasta svarið er kolrangt sem sýnir sig í því að lang flest slys á fótgangandi eiga sér stað í þéttbýli þar sem götulýsing er í ágætu lagi. Sannleikurinn er nefnilega sá að endurskinsmerki eru mun betri líftrygging en götulýsingin. Á upplýstri götu sé ökumaður manneskju með endurskinsmerki í 125 metra fjarlægð en 20-30 metra fjarlægð án endurskinsmerkja.
Fyrr á árum stóð gamla Umferðarráðið (sem ekki er lengur til) fyrir endurskinsátaki á hverju hausti. Ráðið fékk ýmsa aðila í lið með sér, eins og t,d, slysavarnafélög, tryggingafélög, banka og olíufélög með að útvega endurskinsmerki og dreifa þeim til notenda, ekki síst skólabarna og unglinga. Enginn opinber aðili hefur fetað í fótspor gamla Umferðarráðs að gangast fyrir áberandi átaki af þessu tagi og samræma krafta og aðkomu margra að málum að öðru leyti en því sem fram kemur í þessari tilkynningu á vef Samgöngustofu, sem út af fyrir sig er góðra gjalda verð.