Hætta á að holur myndist í þessu tíðarfari
Þegar þíða kemur í kjölfar frosts og kulda eða þegar miklir umhleypingar eru eykst hættan á því að holur myndist í bundnu slitlagi, malbiki og klæðingu. Holur hafa nú þegar verið að koma fram á götum höfuðborgarsvæðisins á síðustu dögum. Eins og dæmin hafa sannað í gegnum tíðina hafa bílar orðið fyrir stórtjóni við að aka ofan í djúpar holur. Ökumenn þurfa að gæta varúðar til að skemma ekki bíla sína.
Í umfjöllun Morgunblaðsins kemur fram að skrifstofa borgarlandsins sér um að fylla í brotholur með köldu viðgerðarmalbiki. Fyllt er í þær holur sem vart verður við í borgarlandinu, eða um ábendingar þar um. Það er gert allt árið, þótt veturinn, sérstaklega síðla vetrar þegar snjóa leysir, sé aðaltíminn í þessu verkefni. Sett eru upp skilti til að vara við holum segir í svari skrifstofunnar við fyrirspurn Morgunblaðsins.
Holufyllingar með heitu malbiki frá malbikunarstöðvum geta ekki hafist fyrr en hitastig úti hækkar og vetrarveðri lýkur. Vegagerðin og sveitarstjórnir hafa óskað eftir ábendingum frá vegfarendum um hættulegar holur í vegum.
FÍB er með forritið www.vegbot.is þar sem fólk getur skráð holu eða skemmdir í vegi. Sé það gert með snjalltæki á staðnum fylgir staðsetning tilkynningunni. Forritið veit á hverra forræði allar götur og vegir á landinu eru og fer hver tilkynning til rétts veghaldara. Gáttin hefur verið opin í á þriðja ár.
Allir veghaldarar á landinu, sveitarfélög og Vegagerðin, taka beint á móti þessum tilkynningum frá Vegbót, nema Reykjavíkurborg. Borgin vill að fólk skrái þetta sjálft í ábendingargátt borgarinnar. Verði vegfarandi fyrir tjóni á ökutæki er hægt að koma tilkynningu um það inn á heimasíðu Vegagerðarinnar og fylla þar út tjónstilkynningu með rafrænum hætti: https://www.vegagerdin.is/thjonusta/tilkynning-um-tjon/.