Hættuástand í veggöngum

Niðurstöður jarðgangaúttektarinnar á Hvalfjarðargöngunum sem birtust í gær er um margt jákvæðar þótt vissulega hafi göngin fallið á prófinu. Viðtal við stjórnarformann Spalar í sjónvarpsfréttum í gærkvöldi var ánægjulegt því hann lagði áherslu á að niðurstaðan væri í raun hjálpartæki. Nú væri það ljóst hvað mætti betur fara, hvernig ætti að lagfæra þau, hvað ætti að lagfæra og hvers vegna.

Fyrir okkur ökumenn sem aka göngin er úttektin líka hjálpartæki sem bendir okkur á hvað ber að varast og hvernig við getum lágmarkað alla áhættu fyrir okkur sjálf og aðra vegfarendur. Hafa ber líka í huga að þótt göngin teljist þau varasömustu í þeim 26 vegganga samanburði sem EuroTAP öryggisúttektin sýnir, þá eru göngin í það heila tekið talsvert hættuminni en vegurinn um Hvalfjörð. Hvalfjarðarvegurinn er krókóttur, mjög mishæðóttur, mjór og víða er hátt fall fram af honum og á hann safnast snjór og hálka á vetrum. 

Sjálf getum við sem ökumenn og vegfarendur lágmarkað hætturnar með því að hafa hugann við aksturinn og tileinka okkur skaplegt aksturslag. Þegar ekið er inn í jarðgöng verður athyglin að vera óskipt við aksturinn. Hér á eftir verða taldar upp nokkur atriði sem til þess eru fallin að auka öryggi okkar og annarra í göngunum. Fari allir eftir þessu er svosem engin ógn á ferðinni:

 Áður en ekið er inn í göngin

*  Hvernig er eldsneytisstaðan? Er hætta á að bíllinn stöðvist í göngunum vegna eldsneytisleysis?
*  Kveiktu á útvarpinu og stilltu á stöð sem sendir útumferðarfréttir.
*  Kveiktu á ökuljósunum og stilltu á lága geislann. Dagljósin eru ekki nóg því að afturljósin lýsa ekki nema kveikt sé á ljósunum. Þeir sem á eftir þér koma    þurfa að geta séð bílinn þinn.
*  Taktu af þér sólgleraugun
*  Fylgstu með umferðarljósum og öðrum umferðarmerkjum.

Inni í göngunum

*  Haltu tryggri fjarlægð í næsta bíl fyrir framan þinn.
*  Aktu innan settra hámarkshraðamarka.
*  Settu á þig staðsetningu öryggistækja og búnaðar, eins og neyðarsíma, neyðarútganga og slökkvitækja.
*  Í tvístefnugöngum skaltu einungis halda þig við hægri vegbrún og víkja eða stansa eins langt til hægri og hægt er ef þess þarf.
*  Aktu aldrei yfir miðlínuna.Taktu aldrei u-beygju né aktu afturábak í veggöngum.
*  Stansaðu aldrei nema í neyðartilvikum.
 

Umferðartafir og -hnútar

*  Ef umferð hægist mjög skaltu kveikja á neyðarblikkljósunum. Haltu minnst fimm metra millibili í næsta bíl fyrir framan.
*  Ef umferðin stöðvast alveg, slökktu þá á vél bílsins.
*  Ekki yfirgefa bílinn
*  Stilltu á umferðarútvarp eða fréttaútsendingu.
 

Ef bíllinn bilar

*  Kveiktu á neyðarblikkljlósunum.
*  Keyrðu bílinn eða komdu honum eins langt út á hægri vegbrúnina og hægt er.
*  Dreptu á vélinni.
*  Gættu að umferðinni og farðu í endurskinsvesti í skærum litum.
*  Tilkynntu vandamálið, helst í næsta neyðarsíma frekar en um farsímann.
*  Bíddu í bílnum eftir hjálp.
 

Slys

*  Kveiktu á neyðarblikkljósunum
*  Legðu bílnum eins langt til hægri og kostur er.
*  Dreptu á vélinni
*  Yfirgefðu bílinn, gættu að umferðinni og farðu í endurskinsvesti.
*  Kallaðu á björgunarlið. Best er að nota til þess neyðarsíma í göngunum fremur en eigin farsíma.
*  Hlúðu að slösuðum.
 
 

Ef kviknar í þínum bíl

*  Kveiktu á neyðarblikkljósunum
*  Ef þess er nokkur kostur, aktu bílnum út úr göngunum. Reyndu samt alls ekki að taka u-beygju eða bakka.
*  Ef engin leið er að aka út, aktu á næsta útskot eða eins langt til hægri og kostur er.
*  Dreptu á vélinni en skildu lykilinn eftir í kveikilásnum
*  Kallaðu til aðstoð. Notaðu frekar næsta neyðarsíma en eigin farsíma.
*  Reyndu sjálfur einungis að slökkva eldinn sé hann nýkviknaður. Ef þú getur ekki slökkt eldinn skaltu forða þér frá eldinum eins fljótt og auðið er.
*  Hlúðu að meiddum og slösuðum.
 

Ef kviknar í öðrum bíl en þínum

*  Kveiktu á neyðarblikkljósunum
*  Haltu þér í góðri fjarlægð frá hinum brennandi bíl.
*  Stöðvaðu þinn bíl eins langt til hægri á akreininni og frekast er kostur.
*  Ekki reyna að bakka eða að taka u-beygju.
*  Dreptu á vélinni og skildu lykilinn eftir í kveikilásnum
*  Kallaðu til aðstoð. Notaðu frekar næsta neyðarsíma en þinn eigin farsíma.
*  Reyndu einungis að slökkva eldinn sé hann ný-kviknaður.
*  Ef þú getur ekki slökkt eldinn skaltu forða þér frá honum eins fljótt og auðið er um næsta neyðarútgang.
*  Hlúðu að meiddum og slösuðum.
 
Fylgstu alltaf með og fylgdu leiðbeiningum og fyrirmælum frá starfsfólki ganganna.
Gleymdu því aldrei að eldur og reykur getur verið banvænt. Bjargaðu lífinu fremur en bílnum.