Hafðu stjórn á bílnum
Góð vetrardekk auðvelda þér að hafa stjórn á bílnum í vetrarfærðinni – á ís, í snjó, krapi. Góðu vetrardekkin eru tækin sem gefa þér taumhaldið á bílnum, þú getur stýrt honum, þú getur hemlað og þú getur stýrt framhjá hindrunum.
Við birtum hér alveg nýja sænska vetrardekkjakönnun. Hún nær til 21 tegundar negldra og ónegldra vetrardekkja af algengri fólksbílastærð; 205/55-R16. Langflestar tegundanna í könnuninni eru fáanlegar hér á landi og eins og vænta mátti eru mörg afbragðs vetrardekk meðal þeirra. En meðal þeirra eru líka dekk sem eru ódýrar og varasamar eftirlíkingar. Allt þetta má lesa úr töflunum hér að neðan. Höfundar könnunarinnar mæla eindregið með því að fólk velji bestu dekkin fyrir sig og sína. Öryggi þitt og þinna er fyrir öllu.
Ódýrustu dekkin um þessar mundir koma flest frá Asíulöndum, einkum Kína. Þau eru oftar en ekki ódýrar eftirlíkingar þekktra vörumerkja og líkjast þeim ekki bara í útliti heldur er nafnið svipað og á dekkjum sem fólk reiknar með að geta treyst. Þannig er vísvitandi verið að villa um fyrir fólki. Dæmi um ódýra eftirlíkingu af góðu vetrardekki er kínadekkið Goodrides. Auðvelt er að ruglast á nafni þess og BF Goodrich sem er allt önnur saga.
Kannski glottir þú yfir óvenju slæmum árangri þessa dekks í prófuninni miðað við dekk þeirra framleiðenda sem vitað er að leggja fé og fyrirhöfn í rannsóknir og tilraunir til að geta boðið góða og örugga vöru. En við skulum þá minnast þess að við eigum áreiðanlega eftir að mæta í vetrarumferðinni allnokkrum bílum á dekkjum sem hafa það lélega eiginleika að ökumenn hafa lítið vald yfir bílnum komi eitthvað upp á í akstrinum. Þetta geta verið, ekki bara léleg Kínadekk, heldur líka grófmynstruð sumardekk með merkingunni M+S sem oft ganga undir nafninu heilsársdekk, gömul og slitin vetrardekk og enn verri og varasamari, eða hrein og klár sumardekk. Og gerist það, er ekki bara líf og limir ökumannanna sem eru með þetta undir bílum sínum í hættu, heldur líka okkar hinna í umferðinni. Það er því ekki að ástæðulausu að það er varað við dekkjum af þessu tagi. Vissulega getur það verið skemmtilegt að finna bílinn sveiflast til að aftan gegnum beygjur, en þesskonar á ekki heima annarstaðar en á lokuðu svæði – alls ekki í almennri umferð.
Töflurnar skýra sig að mestu leyti sjálfar, en það er ekki síst veggrip dekkjanna við hemlun sem skiptir máli þegar vetrardekk eru valin. Við fyrstu sýn gæti kannski virst sem prófarkalesturinn á könnuninni hafi verið eitthvað undarlegur þegar hemlunartöflurnar eru skoðaðar. – Getur það verið að hemlunarvegalengdin sé allt að 190 metrar þegar hemlað er á 50 km hraða á klst? Er hreyfiorka bílsins virkilega svo mikil að hann stöðvist ekki á styttri vegalengd en svo? Svarið er einfaldlega já. Og við getum gert okkur í hugarlund hvað það getur þýtt í umferðinni.
Ráð þeirra sem gerðu könnunina er einfalt: Veldu það besta. Þar með ert þú búinn að gera eins vel og þú getur og líkurnar á að þú getir bjargað þér og öðrum úr bráðri hættu og komið í veg fyrir slys eru stórum meiri en ella.
Eitt af því sem prófað er í þessu dekkjaprófi er hliðargripið. Það er gert á þann hátt að snöggbeygt er á 80 km hraða eins og manneskja eða dýr hlaupi skyndilega fyrir bílinn og enginn tími er til að hemla í tæka tíð. Mælibúnaður í bílunum skynjar þegar bíllinn skrensar og hvort hann nær að beygja framhjá „hindruninni“ eða rekst á hana. Þetta vikpróf er gert á þurru og votu malbiki, á snjó og á ís, enda er allt þetta hluti af vetrarfærðinni.
Hér á Íslandi er talsvert tekið að setja spurningamerki við notkun nagladedekkja, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu. Af hálfu borgarinnar eru rökin gegn nagladekkjunum þau að þau slíta götunum óhóflega og valda heilsuspillandi svifryksmengun. Það eru vissulega áhöld um hvort naglarnir séu alltaf nauðsynlegir.
Við hjá FÍB mælum með því að hver og einn geri sína eigin þarfagreiningu. Telji hann sig búa á þeim stað og við þær aðstæður að naglarnir séu ekki dagleg nauðsyn þá er eðlilegt að sleppa þeim. Það fylgir því nefnilega engin sérstök skemmtun að aka á nöglum. Þeir eru hávaðasamir á auðum vegi, skipta litlu sem engu í snjó. Aðeins á sléttum ís hafa þeir yfirburði. Um leið og nagladekkin hafa ýft yfirborð íssins ná bestu ónegldu vetrardekkin ágætu gripi á ísnum líka.
Í töflunni um núningsmótstöðu og eldsneytiseyðslu er hið óneglda Bridgestone Blizzak best, það er að segja að mótstaða þess og þar með eldsneytiseyðsla minnst. Það verður því viðmiðunardekkið í þessari prófunargrein og við getum séð það á prósentumælikvarða hversu mikið önnur dekk eru frekari á eldsneytið en Blizzak dekkið.
En vart gæti það talist vitlegt að velja sér vetrardekk eingöngu út frá hversu lítið eldsneytisfrekt það er. Ætli það teldist ekki álíka gáfulegt og að velja sér Goodrite því að að það er í lagi á auðum og þurrum vegi? Í hópi bestu vetrardekkjana þegar á heildina er litið er að finna fyrir utan Bridgestone Blizzak, Continental Winter Viking 2, Michelin X-Ice North og Nokian Hakkapeliitta 5 o.fl. En við höfum einnig léleg dekk eins og Federal Himalaya og fleiri.
Einkenni þessara lélegu og ódýru eru þau helst að þau virðast oft þokkalega góð á auðu malbiki þar til eitthvað reynir á, t.d. ef vegur er ósléttur. Og þegar kemur að raunverulegu vetrarfæri eru þau einfaldlega ómöguleg, léleg í snjó og afleit í hálku. Dekk eins og Kingstar, Goodride og Federal eru léleg á ósléttum vegum, þau skortir rásfestu, svara stýringu seint og missa auðveldlega veggripið þegar ekið er yfir mishæðir. Þótt ódýr séu, eru þessi dekk varla verðs síns virði.
En hvað er þá eiginlega besta dekkið í ár? Hvað negldu dekin varðar þá eru niðurstöður nú svipaðar og í samskonar könnun í fyrra. Einstakar tegundir raðast svipað en þetta eru þó ekki sömu dekkin, þau eru orðin betri, því þróunin heldur áfram og við vitum þar með að það er talsvert stór hópur framleiðenda sem veit hvernig á að búa til góð vetrardekk ár eftir ár.
Michelin X-Ice North deilir öðru sætinu með Vredestein Arctrac. Þýsk-hollenska nagladekkið Vredestein Arctrac kemur einna mest á óvart nú. Það hefur gott veggrip í snjó og á ís og nær fínum árangri í hemlunarprófunum. Arctrac er sportlegt vetrardekk. Það svarar fljótt og vel stýrinu sem getur við sumar aðstæður virkað eins og einum of snöggt upp á lagið. Sérstaklega á þetta við í snjó þar sem yfirstýring (afturendasveifla) á sér stað. Michelindekkið er á hinn bóginn eins og rólegt og afslappað og ágætt á auðu malbiki. Það svarar vel í óvæntum aðstæðum og kemst auðveldlega í gegn um þær án áfalla. Þá er núningsmótstaða þess lítil.
Besta dekkið í prófuninni er þó Nokian. Nokian Hakkapeliitta 5 er rétta dekkið fyrir þá sem að jafnaði aka í raunverulegu vetrarfæri vetrarlangt. Veggrip þess er mjög gott og það varar ökumanninn við og lætur hann finna fyrir því þegar það nálgast takmörk sín. Með þetta dekk á öllum fjórum hjólum bílsins hafa menn stjórn á hlutunum í vetrarfærðinni. En jafnframt er Hakkapellitta 5 ágætt í akstri á auðum vegum. Veggrip á auðu mætti og gæti sjálfsagt verið betra, en trúlega þó yrði það á kostnað annarra eiginleika. Gúmmíblandan í slitfletinum er mjúk, en þó er dekkið stöðugt og rásfast á ósléttum vegi og veggnýr er ekki það mikill að til leiðinda sé. Eldri Hakkapellitta dekk voru hávær. Þetta nýja er það ekki.
Í þessu prófi eru öll dekk, negld sem ónegld prófuð á sama hátt og að venju lenda ónegldu dekkin ekki í allra efstu sætunum þegar öllum niðurstöðum er til skila haldið. Það óneglda dekk sem næst þeim bestu negldu kemst er Continental Viking Contact 5. Þeir sem þetta dekk kjósa fá mjög gott vetrardekk með prýðis gripi. Það er þó helst að eiginleikar þess á blautu malbiki séu gagnrýniverðir.
Ef það er sérstaklega bleyta sem er málið, þá væri kannski rétt að líta nánar á annað dekk frá Continental – háhraðadekkið Continental TS 810 sem að öðru leyti reyndist vera í meðallagi sem vetrardekk. TS 810 er fyrirtaks dekk á auðu malbiki, en þegar frystir er maður bókstaflega á hálum ís. Og það kemur vissulega fyrir að það frystir og ísing leggst yfir götur og vegi á Íslandi.
Því miður hefur hið fullkomna vetrardekk fyrir allar vetraraðstæður ekki ennþá verið fundið upp. Það er hægt að fullyrða eftir að þetta dekkjapróf fór fram og reyndar mörg önnur. En aðstæður eru misjafnar og aðalmálið er það að hver og einn geri sína eigin þarfagreiningu og miði við þær aðstæður sem hann býr við og velji vetrardekk í samræmi við þær. Ef þessi könnun hjálpar einhverjum í því efni er það vel.