Hafin verður gjaldtaka fyrir rafbíla á hleðslustöðvum Reykjavíkurborgar
Umhverfis- og heilbrigðisráð Reykjavíkur hefur samþykkt að hafin verði gjaldtaka fyrir hleðslu rafbíla og tengiltvinnrafbíla á hleðslustöðvum Reykjavíkurborgar í miðborginni. Tillaga um þetta kom frá skrifstofu umhverfisgæða.
Umhverfis- og skipulagssvið mun útfæra gjaldskrá. Fram kemur í tillögunni að ýmsar leiðir séu til gjaldtöku, þar á meðal gjald fyrir kílóvattstund, gjald fyrir tíma í hleðslustæði eða áskrift.
Settar voru upp hleðslustöðvar á 13 stöðum í miðborginni árið 2018. Hleðslan hefur verið gjaldfrjáls en notendur hafa greitt í stöðumæli að loknum 90 mínútum og greitt fyrir afnot af bílastæðahúsum.