Hagstæðari lán kann að ýta undir bílasölu á næstunni
Lán til bílakaupa kunna að vera hagstæðari um þessar mundir en í umfjöllun í Viðskipta Mogganum kemur fram að vextir til til slíkra kaupa hafa lækkað samhliða vaxtalækkun Seðlabankans. Þetta gæti ýtt undir meiri bílasölu á næstunni.
FÍB sagði frá því að dögunum að korónuveiran hefur haft veruleg áhrif á skráningu nýrra fólksbíla hér á landi. Bílaleigur líkt og ferðaþjónustan í heild hafa glímt við mikinn samdrátt. Í nokkur ár fór um helmingur nýskráðra fólksbíla til bílaleiga en sú sala hefur hrunið í ár.
Talsverð umræða um vaxtakjör og vaxtalækkanir hefur verið í þjóðfélaginu í sumar og nú í haustbyrjun. Hvernig standa vaxtamál þegar lán til bílakaupa nú um stundir? Viðskipa Mogginn kannaði þróunina í þeim efnum hjá lánafyrirtækjum. Í svari frá TM kom fram að að ólíkt lánum á kjörvöxtum eru bílalán og bílasamningar Lykils tengdir millibankavöxtum til eins mánaðar og hafa því þau lán og samningar lækkað um 3,362 prósentustig frá 1.1. 2019
Hjá Íslandsbanka fengust þær upplýsingar að vaxtakjör vegna bílalána og bílasamninga réðust af upphaflegu fjármögnunarhlutfalli en um væri að ræða þrjá flokka: 51% eða lægra, 51-69,9% og 70% eða hærra. Upplýsingafulltrúi Íslandsbanka sagði, fyrir hönd Ergo, að um 70% nýrra útlána hjá Ergo féllu í flokkinn „70% eða hærra“.
„Ergo hefur lækkað vexti jafnt í öllum flokkum, ólíkt keppinautum sínum. Frá og með júní 2020 hefur Ergo boðið sérstök kjör vegna fjármögnunar á vistvænum ökutækjum, þar er veittur 0,75 prósentustiga vaxtaafsláttur í öllum flokkum,“ sagði fulltrúinn við Viðskipta Moggann.
Hjá Arion banka fengust upplýsingar úr vaxtatöflu bankans miðað við dagsetningu og breytingu vaxta. Fulltrúi bankans sagði að til að auðvelda samanburð væri taflan einfölduð á tímabilinu 11.7.-21.11. 2019 þar sem vaxtataflan hefði á því tímabili verið þrepaskipt með þeim hætti að vextir breyttust við hvert prósent í auknu veðhlutfalli. Með slíkri framsetningu ætti því að fást skýrari mynd af þróun vaxta.
Hjá Landsbankanum fékk Viðskipa Mogginn þær upplýsingar að vaxtakjörin færu eftir lánshlutfalli. Eins og gröfin fjögur bera með sér hafa vextir af bílalánum farið lækkandi frá ársbyrjun 2019. Það kann aftur að hafa örvað sölu.
Í umfjöllun FÍB um bílasölu hér á landi nýverið kom fram að árið 2018 voru nýskráðir 17.971 nýir fólksbílar sem er vel yfir meðaltali síðustu ára en metár var í bílasölu 2017 þegar 21.330 fólksbílar voru nýskráðir. Árið 2019 fór salan niður í 11.700 bíla. Verulega hefur dregið úr nýskráningum í ár samanborið við síðustu tvö ár. Alls seldust á fyrstu átta mánuðum ársins 6254 nýir fólksbílar.