Hálfrar aldar eðalvagn
04.07.2005
Það var 14. júlí 1955 sem bílasmiðjan Karmann frumkynnti Karmann Ghia, fallega straumlínulagaðan tveggja sæta sportbíl sem byggður var ofan á undirvagn Fólksvagnsbjöllunnar. Haldið verður upp á daginn í heimabæ Karmann, Osnabrück annan fimmtudag með miklum hópakstri „eftirlifandi“ bíla af þessari gerð. Hátíðahöld vegna afmælisins standa til og með 17. júlí. Karmann bílasmiðjan er aldargömul og hefur alla sína tíð smíðað ótal sérgerðir og –útfærslur af mörgum tegundum bíla. Enginn þessara sérsmíðuðu bíla hefur þó tengst nafni Karmann jafn órjúfanlega og fyrsti sport(legi)bíll Volkswagen, VW Karmann Ghia.
VW Karmann Ghia átti sér stuttan aðdraganda. Það var ítalska hönnunarfyrirtækið Ghia sem teiknaði bílinn vorið 1953 og fáum vikum síðar var búið að smíða fyrstu frumgerðina. Eftir að Wilhelm Karmann hafði sýnt frumgerðina þáverandi forstjóra Volkswagen, Heinrich Nordhoff gaf Nordhoff grænt ljós á að framleiða bílinn. Næstu tvö árin voru svo notuð í að fínpússa hann og undirbúa verksmiðjuna hjá Karmann og loks rann upp frumsýningardagurinn fyrir blaðamenn 14. júlí 1955. Frumsýningin var haldin við spilavítishótel í smábænum Georgsmarienhütte rétt utan við Osnabrück og fengu blaðamennirnir alls tíu bíla til reynsluaksturs. Sjálf fjöldaframleiðslan hófst svo í ágústmánuði á VW 143 eins og fyrsta kynslóð bílsins hét.
Undirvagninn ásamt gírkassa og vél var sem fyrr segir nákvæmlega sá sami og í gömlu Bjöllunni sem innanhúss hjá VW hét gerð 1. Ekki var nú aflið neitt ógurlegt því vélin var aðeins tæplega þúsund rúmsentimetrar og 34 hestöfl. Þetta sama haust voru svo tvö eintök bílsins sýnd á bílasýningunni í Frankfurt, annað svart en hitt grænt með svörtum toppi. Viðbrögðin létu ekki á sér standa og rúmu ári síðar, í október 1956 rann tíuþúsundasti Karmann Ghia bíllinn af færibandinu í Osnabrück.
Í september 1957 birtist svo á bílasýningunni í Frankfurt opin útgáfa bílsins með fellanlegri blæju. Róttæk breyting var svo gerð á VW Karmann Ghia árið 1961 því þá var yfirbyggingin stækkuð og löguð að undirvagni nýs og stærri bíls; VW 1500 sem innanhúss hjá VW hét gerð 3. Aflið í þessum bíl var orðið mun meira eða heil 45 hestöfl og hámarkshraðinn 132 km/klst.
Alls voru framleidd 365.912 eintök af VW Karmann Ghia coupé og 79.326 blæjubílar. Margir þessara bíla eru ennþá til og er búist við þúsundum þeirra til Osnabrück á afmælishátíðina.