Hámarkshraði í 40 km á Hringbrautarkafla
Borgarstjórn samþykkti á fundi sínum í gær að lækka hámarkshraða á nokkrum götum í Vesturbæ, þar á meðal á Hringbraut á milli Ánanausta og Sæmundagötu, í 40 km/klst.
Hámarkshraði verður lækkaður úr 50 km á klukkustund í 40 km á Hringbraut – frá Ánanaustum að Sæmundargötu, Hofsvallagötu á milli Hringbrautar og Ægissíðu, Ægissíðu, Nesvegi á milli Kaplaskjólsvegar og Granaskjóls/Sörlaskjóls ásamt úrbótum sem samþykktar voru fyrir öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda á Hringbraut.
Þá samþykkti borgarstjórn að beina því til skipulags- og samgönguráðs að rýna næstu skref varðandi það á hvaða götum í Reykjavík verði hægt að lækka hámarkshraða niður í 40 km/klst. Rannsóknir sýna að alvarlegum slysum hefur fækkað mjög eftir að hámarkshraði var lækkaður í 30 km á klukkustund í íbúðahverfum.
Í leiðbeiningum Vegagerðarinnar og Reykjavíkurborgar kemur fram að lykilþáttur í að tryggja öryggi við gönguþveranir sé að tryggja lágan umferðarhraða. Áhrif umferðarhraða bifreiða á umferðaröryggi eru tvenns konar. Annars vegar hefur umferðarhraði bein áhrif á afleiðingar umferðaróhapps. Rannsóknir benda til að líkur á dauðsfalli (yngri en 60 ára) ef bifreið á 30 km/klst. hraða ekur á gangandi vegfaranda eru um 20% en um 80% ef bifreiðin er á 50 km/klst. hraða.