Samgöngukerfið er lífæð landsins
Á Samgönguþingi sem haldið var í gær kom fram að miklar framkvæmdir sem lúta að nýframkvæmdum og viðhaldi blasa við í vegakerfinu á næstu árum. Efnahagshrunið sem varð hér á landi hefði ekki hvað síst komið hvað harðast niður á vegakerfinu en nú væri runninn upp tími til að vinna það upp sem setið hefur á hakanum.
Í ávarpi Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, kom fram að hægst hefði á allri uppbyggingu í vegakerfinu í kjölfar hrunsins. Samgöngur skipta sköpum í okkar landi því þær væru undirstaða í allri grunnþjónustu. Ljóst væri að ráðast yrði í stór og umfangsmikil verkefni í vegaframkvæmdum á næstu árum. Fram kom í máli ráðherra að hann útilokaði ekki að gripið yrði til gjaldtöku af afnotum nýrra framkvæmda.
„Eitt af forgangsmálum ríkisstjórnarinnar er að hraða uppbyggingu í vegamálum til að tryggja umferðaröryggi vegfarenda og treysta fjölbreytt atvinnulíf um land allt. Í stjórnarsáttmálanum er kveðið á um að við forgangsröðun í vegamálum verði litið til ólíkrar stöðu svæða, ferðaþjónustu og öryggissjónarmiða,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra m.a. í ávarpi sínu á þinginu.
Hann kom víða við og sagði að samgönguáætlunin sem lögð verður fram í haust verði í takt við þær fjárheimildir sem eru til umráða hverju sinni og taki mið af fjármálastefnu og fjármálaáætlun sem eru til 5 ára.
„Það er liðin tíð að Samgönguáætlun sé einhver óskalisti, hún á að vera raunsæ og tímasett áætlun um samgöngukerfið, sem er lífæð landsins,“ sagði Sigurður Ingi.
Fram kom á þinginu að stefnt er að því að 160 milljörðum verði varið í viðhald og framkvæmdir í vegakerfinu á næstu fimm árum. Sú upphæð gæti hæglega tvöfaldast yrði innheimta veggjalda tekin upp. Sett hefur verið á laggirnar nefnd á vegum samgönguráðuneytisins sem skoðar hvernig flýta megi framkvæmdum og ennfremur hvernig staðið verður að gjaldtöku á einstaka mannvirkjum og vegum.
Leita verði allra leiða til fjármögnunar til uppbyggingar vegakerfisins á næstu árum en ljóst að mikil vinna er fram undan í þeim efnum. Þess má geta að nú þegar hefur fjórum milljörðum verið bætt við núgildandi áætlun yfirstandandi árs sem verja á til viðhalda og vegaframkvæmda.
Á Samgönguþinginu kom ennfremur fram í máli ráðherra að skoða þyrfti tekjustofn ríkisins sem lítur að bílanotkun en tekjur ríkisins af bifreiðanotkun hefði dregist saman á hvern bíl m.a. vegna fjölgunar umhverfisvænna bifreiða. Þess ber að geta að tekjur ríkissjóðs af bifreiðum og umferð hafa snarhækkað síðustu árin vegna mikillar nýbílasölu og aukins heildaraksturs bílaflota landsmanna. Skattar á hvern lítra á eldsneyti hafa hækkað og ferðamenn standa núna undir umtalsverðum hluta aksturs á vegum landsins. Sigurður taldi að þessi þróun myndi að öllum líkindum halda áfram.
Vinna við nýja samgönguáætlun er í fullum gangi og samgönguráð sem vinnur hana mun leggja hana fram á haustmánuðum.