„Háspennu“- Twizy

Margur ungur drengurinn hefur látið sig dreyma um að smíða sér flottan kassabíl og setja í hann öfluga vél til að geta þeyst um nágrennið undir vökulum aðdáunaraugum fegurstu stúlkunnar í blokkinni. Segja má að sú deild Renault sem byggir Formúlubíla hafi innleyst kassabílsdrauminn eftirminnilega með því að breyta Renault Twizy rafmagnsfarartæki í mjög athyglisvert kappaksturstryllitæki.

http://www.fib.is/myndir/Supertwizy1.jpg
http://www.fib.is/myndir/Supertwizy2.jpg

Renault Twizy er eiginlega millistig milli lítils borgarbíls og fjórhjóls. Twizy er í staðalútgáfunni tveggja manna og rafknúinn, rafmótorinn er 17 hö. og hámarkshraðinn er milli 80 og 90 km á klst.

Í uppfærslu Formúludeildarinnar er Twizy komið með 100 ha. mótor sem skýtur farartækinu í hundraðið á sex sekúndum sléttum. Í útliti er svo farartækið einna líkast samanþjöppuðum Formúlu 1 bíl. Flennistór vængur framanundir því og stór stélvængur aftaná halda Twizy  við jörðina og koma í veg fyrir að hann takist á loft þegar hraðinn tekur að nálgast ískyggilega mikið annað hundraðið.

Renault Twizy Sport F1, eins og fyrirbærið nefnist, verður trúlega ekki fjöldaframleiddur. Þau fáu eintök sem byggð hafa verið verða til sýnis hingað og þangað næstu mánuði í tengslum við markaðssetningu á Twizy hér og þar, m.a. á Norðurlöndunum þar sem almenn sala er að hefjast. Í Danmörku er komið verð á Twizy. Það er um 1,2 milljónir ísl. kr..